Innlent

Aðalskipulag ekki staðfest

Skipulagsstofnun hefur ekki sent tillögu Seltjarnarnesbæjar að nýju aðalskipulagi til staðfestingar hjá umhverfisráðherra heldur óskað eftir frekari upplýsingum frá bæjaryfirvöldum. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, starfandi skipulagsstjóri, segir að bæjaryfirvöldum hafi verið sent bréf vegna þessa. Skipulagsstofnun telji að bæjaryfirvöld eigi eftir að bregðast við þeim athugasemdum sem stofnunin gerði á sínum tíma við skipulag Hrólfsskólamela. Þá telji stofnunin einnig að bæjaryfirvöld eigi eftir að bregðast við athugasemdum almennings við skipulag svæðisins. Guðrún Helga Brynleifsdóttir, oddviti Neslistans, segir þetta ekki koma á óvart. Neslistinn, líkt og fjölmargir íbúar Seltjarnarnesbæjar, hafi margoft mótmælt skipulaginu. Sjálfstæðismenn hafi hins vegar ekki sýnt neinn sáttavilja heldur keyrt málið áfram án þess að láta sig mótmælin miklu varða. Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri vísar gagnrýni Neslistans á bug. Hann segir málið hafa verið í vinnslu í rúm tvö ár og mjög vel kynnt fyrir íbúum. Jónmundur segir að grundvallaratriðið sé að Skipulagsstofnun sé ekki að gera bæjaryfirvöld afturreka með skipulagið heldur sé verið að óska eftir frekari upplýsingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×