Innlent

Framlag Íslands hækkað

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka framlag sitt til neyðaraðstoðar og uppbyggingar vegna hamfaranna í Asíu upp í hundrað og fimmtíu milljónir. Níutíu og fimm milljónir króna hafa safnast í söfnun Rauða krossins. Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar í dag að hækka framlag Íslendinga til neyðaraðstoðar og enduruppbyggingar. Það verður samtals hundrað og fimmtíu milljónir. Þar af hafa þrjátíu og fimm milljónir þegar farið í að flytja slasaða Svía til síns heima og tuttugu og fimm milljónum hafði þegar verið ráðstafað til þróunaraðstoðar á Srí Lanka. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir þetta ekki viðbrögð við gagnrýni. Ríkisstjórnin hefði sagt strax eftir atburðina að hún myndi einbeita sér að Srí Lanka. Þar hefði átt að verja 25 milljónum í þróunaraðstoð en ákveðið hefði verið að hækka upphæðina í 75 milljónir. Það hefði smám saman verið að koma í ljós hversu umfangsmiklir þessir atburðir hefðu verið og hversu miklu verra ástandið væri en talið hefði verið í upphafi. Halldór var spurður af hverju upphæðin hefði ekki verið hækkuð fyrir, í ljósi gagnrýni á fimm milljóna króna framlag í upphafi. Hann sagði að unnið hefði verið að málinu, í dag hefði verið fyrsti ríkisstjórnarfundur eftir áramót og þetta hefði alltaf legið fyrir. Til samanburðar má geta þess að Norðmenn gefa ellefu milljarða íslenskra króna eða sem samsvarar tvö þúsund og fjögur hundruð krónum á hvert norskt mannsbarn. Framlag Íslendinga jafngildir sex hundruð krónum á hvern Íslending. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri afhenti Rauða krossinum tíu milljónir í dag en alls hafa safnast 90 í söfnun vegna hamfaranna. Um helmingur er frá einstaklingum í framlögum eða símasöfnun í númerinu 907 20 20. Samtök bankamanna gáfu það sem ellegar hefði farið í að halda upp á sjötíu ára afmæli samtakanna eða 70 milljónir. Nýstárlegasta söfnunin fór fram í Menntaskólanum í Reykjavík í morgun þar sem nemendur gripu til undarlegra uppátækja til að safna peningum. Einn nemandi hélt á Lofti í 30 mínútur. Loftur virtist kunna afar vel við sig á baki félaga síns. MR-ingar ákváðu að safna með alls kyns áheitum fyrir undarleg tiltæki. Einn þeirra fékk t.d. helming ríkisstjórnarinnar til að faðma sig í þágu góðs málefnis: Guðna Ágústsson, Árna Mathiesen, Geir Haarde, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Árna Magnússon og Sturlu Böðvarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×