Skoðun

Vildi hann kannski vel?

Sóllilja Guðmundsdóttir skrifar
Ég þekkti eitt sinn stúlku sem sagði mér sögu sem mig langar að deila með ykkur. Það var hásumar og vinahópur nokkur ákvað að skella sér saman á útihátíð. Þau fóru á tónleika þar sem alls kyns frægir listamenn tróðu upp og skemmtu sér konunglega.

Ein stúlkan úr hópnum kynntist strák, myndarlegum og flottum íþróttastrák, og þau tóku spjall saman. Vinir hennar vissu meira að segja hver hann var; en hann var víst stórt nafn í menntaskólanum sínum og þótti mikill sjarmör. Stúlkan varð spennt fyrir honum og saman gengu þau afsíðis. Þau komu sér fyrir stutt frá tónleikastaðnum og létu vel hvort að öðru.

Skyndilega tók hann í hönd hennar og leiddi hana snöggt á fætur og spurði hvort hún vildi ekki koma með inn í tjaldið hans. Það var ekki laust við að fljótfærnin stressaði hana eilítið upp… eða var þetta spenna? Hún sýndi mótþróa í fyrstu en samþykkti svo að fara með honum.

Stúlkan gerði sér ekki grein fyrir því að um nauðgun hefði verið að ræða fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Hún sagði nei, hún streittist meira að segja á móti, hún klæddi sig aftur í, hún sneri sér undan og hún reyndi að stama upp afsökunum til þess að fá hann til að hætta. En hún kyssti hann til baka, hún fór með honum inn í tjald og hún leyfði honum að koma sínu fram í fyrstu. Var þetta kannski henni að kenna?

Henni fannst hún einhvern veginn ekki geta skilgreint þetta sem nauðgun. Síðar lærði hún í skólanum þá einföldu og augljósu skilgreiningu að um nauðgun væri að ræða þegar annar aðili gæfi ekki fullt samþykki.

Engin grá lína

Þetta vitum við öll. En skiljum við þetta öll? Það er engin grá lína sem skilur á milli nauðgunar og samfara.

Aðeins 10-11% fórnarlamba nauðgana og kynferðisofbeldis hér á landi tilkynna brotið til lögreglu skv. tölum frá Stígamótum. Ástæður þess að fórnarlömb kynferðisofbeldis stíga ekki fram eru nokkrar. Fórnarlömb trúa oft ekki að eitthvað svo slæmt hafi hent sig, þau fara í afneitun.

Önnur fórnarlömb eru hrædd við útilokun; stígi þau fram fái þau einhvern á móti sér, t.d. fjölskyldu eða vini – og í tilfelli ofangreinds dæmis: heilan vinahóp af vinsælum krökkum í valdastöðu í sama samfélagi. Hin síðasta og líklega mest sláandi ástæða er að mörg fórnarlömb eru hreinlega ekki viss um að um nauðgun hafi verið að ræða; hvort brotamaðurinn hafi nokkuð ætlað sér að meiða þau. Vildi hann kannski vel?

Þessa hugsun getum við rakið til fjölmiðla. Þeir sýna okkur staðlaða mynd af skelfilegum, vopnuðum nauðgara í dimmu húsasundi. Þeir sýna okkur ekki „venjulega“ einstaklinginn – og hvað þá myndarlega og vinsæla einstaklinginn – sem fremur verknaðinn í heimahúsi eða jafnvel á stefnumóti. Fólk treystir heldur ekki réttarkerfinu vegna fjölda niðurfellinga í þessum málum.

Því miður eru nauðgarar ekki sjálflýsandi hætta sem við getum varað fólk við. Í flestum tilvikum þekkir fórnarlambið geranda sinn. Dæmið sem ég tek er því lýsandi fyrir margar nauðganir. Dæmið er ekki sláandi eða blóðugt en engu að síður grafalvarlegt. Afleiðingin er sú að fólk stígur oft fram árum eða áratugum eftir að ofbeldið var framið.

Við eigum ekki að hræðast alla sem við mætum úti á götu en við þurfum að vera meðvituð um vandamálið. Venjulegur hversdagsleikinn má ekki hlífa nauðgaranum. Það þarf að opna umræðuna um kynferðisofbeldi og tala jafn opinskátt um það eins og önnur ofbeldisbrot.

Slasaður einstaklingur fær þegar í stað læknishjálp þar sem áverkar hans eru sýnilegir. Einstaklingur, sem er beittur kynferðislegu ofbeldi og hefur oft ekki sýnilega áverka, þarf að ferðast langa leið og útskýra, jafnvel fyrir nokkrum, af hverju hann hyggst leita sér aðstoðar. Kynferðisofbeldi á sér stað allt í kringum okkur og því verðum við að horfast í augu við vandamálið. Fyrr fáum við ekki fórnarlömb til að tala. Með því að þegja gerum við engum greiða – nema nauðgaranum.




Skoðun

Sjá meira


×