Viðskipti innlent

Brim greiðir aftur rúmlega 1,8 milljarða arð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson er forstjóri Brim og aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Guðmundur Kristjánsson er forstjóri Brim og aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur. Vísir/vilhelm

Útgerðarfélagið Brim mun greiða hluthöfum sínum arð sem nemur næstum 1,9 milljörðum króna í lok apríl. Aðalfundur félagsins samþykkti arðgreiðsluna á fundi sínum í gær. Þetta er sambærilegur arður og Brim greiddi hluthöfum sínum í fyrra, þegar greiðslan nam rúmum 1,8 milljörðum.

Stjórn Brims lagði fram svohljóðandi tillögu að greiðslu arðs fyrir aðalfundinn í gær:

„Samþykkt að á árinu 2020 verði vegna rekstrarársins 2019 greiddar 1,0 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 1.899 millj. kr. (um 14,0 millj. evra á lokagengi ársins 2019), eða 2,6% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2019. Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2020. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 31. mars 2020 og arðleysisdagur því 1. apríl 2020. Arðsréttindadagur er 2. apríl 2020. Arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags.“

Útgerðarfélag Reykjavíkur er stærsti hluthafinn í Brimi en það er í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims. Hann heldur alls á rúmlega 26 prósenta hlut í Brimi í gegnum sex félög. Fyrrnefndu Útgerðarfélagi Reykjavíkur var gert að greiða þrotabúi Glitnis tvo milljarða króna í upphafi nýliðins marsmánaðar.

Samhliða því að samþykkja fyrrnefnda arðgreiðslu veitti aðalfundurinn stjórn Brims heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu. Heimildin varir í 18 mánuði og má Brim ekki eiga meira en 10 prósent í sjálfu sér.

Þá greindi heilbrigðisráðuneytið frá því í gær að Brim er eitt þeirra 20 fyrirtækja sem teljast gegna svo mikilvægu hlutverki í íslensku þjóðlífi að þau fá undanþágu frá samkomubanninu sem nú er í gildi.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×