Handbolti

Guðmundur lét það í hendur Vignis að ákveða hvort hann kæmi með á Ólympíuleikana í Peking

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vignir Svavarsson í einum af sínum fjölmörgu landsleikjunum.
Vignir Svavarsson í einum af sínum fjölmörgu landsleikjunum.

Vignir Svavarsson segir að það hafi verið bæði erfitt og sætt að fylgjast með Ólympíuleikunum í Peking 2008. Ísland náði í silfur á mótinu en línumaðurinn meiddist rétt fyrir brottför og ferðast ekki með liðinu á mótið.

Vignir tilkynnti í fyrradag að hann ætlaði að hætta handboltaiðkun en hann hafði síðasta tímabil leikið með uppeldisfélaginu Haukum. Hann á yfir 200 landsleiki og segir að það hafi aldrei setið í honum að komast ekki með á leikana í Peking 2008.

„Það hefur aldrei setið í mér. Það var erfitt á sínum tíma. Gummi var að þjálfa á þessum tíma og ég var tognaður í maganum man ég. Hann er svo mikill öðlingur að hann lét það eiginlega í mínar hendur hvort að ég ætlaði að koma með eða ekki,“ sagði Vignir sem ákvað svo í samráði við Guðmund að fara ekki með til Peking.

Ísland tapaði sem kunnugt er fyrir Frökkum í úrslitaleiknum og fékk silfur á leikunum en Vignir segist hafa glaðst með strákunum.

„Ég sá fram á það að ég væri ekkert að fara spila nema þá einhvern tímann seint á leikunum og í sameiningu tókum við þá ákvörðun að ég myndi ekki fara. Það var mjög erfitt á þeim tíma en svo að sjá strákana ná þessum árangri, þá samgladdist ég bara. Það var frábært að fylgjast með þessu. Auðvitað hefði maður óskað þess að hafa verið þarna örugglega eins og allir handboltamenn en það var bæði erfitt og sætt,“ sagði Vignir.

Klippa: Sportið í dag - Vignir um að hafa misst af ÓL 2008

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×