Skoðun

Kynja­klyfturinn í drep­sóttinni

Arnar Sverrisson skrifar

Drepsóttin eða hin skæða farsótt, sem geisar um þessar mundir, hefur varla farið fram hjá neinum. Reynslan ber vitni um, að karla séu oftar drepsóttir. Enginn veit, hvað veldur. Konur kynnu að búa yfir betri eðlislægum vörnum, búa við betra ónæmiskerfi. U.þ.b. tvöfalt fleiri karlar liggja í valnum, heldur en konur. Samhæfingarstjóri sóttvarna í Hvíta húsinu, Deborah Birx, benti á þessa staðreynd og dró svo af henni þá sérkennilegu ályktun, „að sýna beri árvekni og vernda ... íbúa á hjúkrunarheimilum.“

Aðvaranir og hvatning um árvekni kemur einnig úr annarri átt. Kvenfrelsarar hafa upp á síðkastið skrifað fjölda blaðagreina til að minna á nauðsyn þess að skoða kynjaklyftinn eða kynjagjánna (e. gender gap) í drepsóttinni, þ.e. mismunandi áhrif veirunnar á hefðbundnu kynin tvö. Einstaka höfundur nefnir eins og fyrir siðasakir ofangreinda staðreynd, en fjallar svo í löngu máli afleiðingar sóttarinnar fyrir konur. Norður-ameríski blaðamaðurinn, Elizabeth Ralph, segir til að mynda: „„Sjúkdómurinn virðist eins og stendur höggva stærri skörð í raðir karla, hvað snertir smithættu og andlát. ... en höfum í huga, að konur munu bera umtalsverðan hluta klyfjanna.“

Kanadíski rithöfundurinn, Andrea Gunraj, segir: „Kyntengd reynsla af veirunni á rætur í misrétti kynjanna, sem hefur áhrif á okkur öll á degi hverjum.“ Hún bendir einnig á, að konur séu í fyrstu víglínu í baráttunni gegn veirunni; hjúkrunarkonur, mæður, ömmur, frænkur, þjónustustúlkur og barnfóstur. Einkum séu það fátækar konur, sem verði fyrir barðinu á veirunni, en fátækt telur hún kynjabundna. Kynbundin fátækt og kynbundinn launamunur eru því tvö meinleg einkenni kynjaklyftsins, sem hafa beri í huga. Christina Maags, kennari við SOAS háskólann í Lundúnum, sem samkvæmt eigin lýsingu sérhæfir sig í málefnum Asíu, Afríku og Miðausturlanda, segir: „[L]ágtekjukonur bera sérstaklega skarðan hlut frá borði vegna samdráttar í neyslu, þar sem þær eru líklegar til að sinna störfum við gistingu, smásölu og þjónustugreinar.“

Í nýlegri grein í tímaritinu, „Lancet,“ leggja höfundarnir, Clare Wenham, lektor í alþjóðlegri heilbrigðisstjórnun, og félagar hennar, Julia Smith og Rosemary Morgan, báðar fræðimenn á heilbrigðissviði, áherslu á að draga lærdóm um kynjaklyftinn frá fyrri farsóttum. Höfundar staðhæfa í véfréttarstíl: Þegar Ebola faraldurinn gekk yfir Afríku (ekki er bitið úr nálinni með hann enn) voru konur í meiri smithættu, heldur en karlar, þar sem þær sinntu fremur aðhlynningu og heilbrigðisstörfum. Þar að auki höfðu þær síður ákvörðunarvald og þörfum þeirra var síður fullnægt og fé síður veitt til heilsuvarna í sambandi við barnsburð. Þegar Zika-veira náði sér á strik, eftir um hálfrar aldar dvala, og farsótt geisaði á ný, höfðu konur ekki sjálfræði yfir kynlífi og æxlun sökum aflsmunar karla. Ei heldur var heilbrigðisþjónusta fullnægjandi.

Konur eru fjölmennar meðal heilbrigðisstarfsmanna, allt að áttatíu af hundraði, enda þótt karlmenn séu fjölmennari á sumum sviðum. (Þar krefjast konur reyndar „meira jafnréttis.“) Álag á hjúkrunarfræðinga er gífurlegt. BBC átti viðtal við hjúkrunarkonu, sem sagði farir sínar og stéttar sinnar ekki sléttar. Þeim var meinað að matast, hvílast og næra sig á tíu tíma vöktum. Þetta eru augljós brot á vinnulöggjöf, skerðing mannréttinda og kúgun kvenna.

Lokun skóla er konum ógn og „gæti haft mismununaráhrif á konur, sem að mestu leyti sinna aðhlynningu í fjölskyldum. Afleiðingin er skerðing vinnutíma og fjárhagslegra tækifæra. (Clare Wenham, Julia Smith og Rosemary Morgan) Í sama streng tekur Andrea Guraj: „Laun kvenna kunna að skerðast, eftir því sem þær axla meiri ógreidda umönnun.“

Enski rithöfundurinn, Lucia Graves, fullyrðir einnig, að konur búi við sérstakt álag í sambandi við heimilisstörf. Hún vísar til fjölda kannanna í því efni. Karlar nenna heldur ekki að sinna börnum sínum, fullyrðir Lucia. Í því sambandi vísar hún m.a. til nýlegrar Gallup könnunar, sem bendi til, að konur séu sjö sinnum líklegri til að sinna börnunum, heldur en karlar. Sérstaklega verði einstæðar mæður þó illa úti. Samkvæmt opinberum tölum frá Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) eru mæður í forsvari fyrir áttatíu af hundraði einsforeldrisfjölskyldna.

Reynslusaga Antonina Mamzenko, sem er sjálfstætt starfandi ljósmyndari, er lærdómsrík: „Svo mikið er víst, að allt kíf í sambandi við veiruna bættist á mínar herðar. Allt frá því að fylgjast með fréttum og læra um einkennin, að hvetja níu ára snáðann til dáða, að útskýra ástandið, án þess að valda honum kvíða, að minna hann á að þvo sér um hendurnar, að fylgjast með því, hvort við hefðum smitast, að taka ákvarðanir um, hvort við ættum að hætta okkur út ..., og sinna öllum snúningum því tengdu. ... Allt er þetta svekkjandi, en ég er svo sannarlega vön. Það er bara svo dæmigert [par for the course], að ætlast til, að ég ráði við þetta allt.“

Breski kvenfræðingurinn (sérfræðingur í tíðablæðingum), Lara Owen, segir okkur aðra reynslusögu, þjáningasögu Sung So-young, blaðamanns frá Suður-Kóreu. Skólagöngu tveggja barna hennar var frestað. Því hafði hún neyðst til þess að dvelja heima með börnum sínum á fjórðu viku. Þau drepa tímann við að horfa á kvikmyndir og við tölvuleiki. Þetta veldur Sung So-young þunglyndi. Hún sagði: „Mig langar á skrifstofuna, því heiðarlega frá sagt get ég ekki einbeitt mér heima. En [þar sem] eiginkarlinn er fyrirvinnan, getur hann ekki beðið um leyfi.“ Sung So-young hafi heyrt á skotspónum, að fyrirtæki skertu nú laun kvenstarfsmanna, sem ekki mættu í vinnu.

Kristi Wallace er framkvæmdastjóri samtaka, sem styðja við bakið á konum á vinnustöðum. Hún segir m.a.: „Það er dæmigert, að konur séu stjórnendur heilbrigðisþjónustu á heimilum sínum, skemmtanastjórar og yfirkennarar. Þessi hlutverk verða afar íþyngjandi á krepputímum, þegar leikreglur eru óskýrar [í andrúmslofti] angistar og örvæntingar.“

Aura Addati er sérfræðingur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í málefnum kvenna og fjárhagslegri valdeflingu þeirra. Hún segir m.a.: „Sú áskorun, sem neyðarástandið hefur í för með sér, styrkir fyrirliggjandi misrétti. Sé álagi í sambandi við börn og heimilisstörf misskipt, mun konan taka á sig ábyrgðina á heimanámi, útvegun vista og kreppustjórnun.“

Samherji hennar, Maria Holtsberg, sem starfar sem ráðgjafi um hamfaraáhættu og hjálparstarf á vegum kvenfreslunardeildar Sameinuðu þjóðanna (UN Women) í Asíu, fullyrðir í sama dúr: „Kreppur gera kynbundið misrétti ævinlega þungbærara.“ Hún hefur áhyggjur af því, að þjónusta við konur í neyð verði skert: „Það veldur okkur áhyggjum, að skertir verði fjármunir til bráðnauðsynlegrar þjónustu, sem konur reiða sig á, eins og jafnaðarlega heilsufarsskoðun og hjálp sökum kynbundins ofbeldis.“

En mesti vágesturinn í lífi kvenna er ekki veiran sjálf, heldur ástmaðurinn. Zhang Wanqing, skrifar í fréttablaðið „Sixth Tone,“ um kynjaklyftinn í Kína. Höfundur vísar til aðgerðasinnans, Wan Fei, sem fullyrðir, að 90% ofbeldis gegn konum á heimilunum sé tengt farsóttinni. Hann segir líka sorgarsöguna af barni, sem ráfaði um yfirgefnar götur, ásamt systkini og móður. Faðir barnanna hafði beitt móður þeirra ofbeldi og kastað þeim á dyr.

Í fyrrnefndum miðli er einnig haft eftir Jiang Jinjing, talsmanni „Kórónaveirusystranna“ í Hubei-héraði, að ekki sé tekið tillit til þarfa kvenna í sambandi við tíðablæðingar. (Þetta hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir einnig bent á í sambandi við raunir kvenkyns flóttamanna. Hún taldi yfirsjónina þó ekki stafa af illsku karlanna, heldur því, hversu skyni skroppnir þeir væru um þarfir kvenna.)

Norður-ameríski rannsóknablaðamaðurinn, Melissa Jeltsen, sem hefur heimilisofbeldi sem sérsvið, skrifar í dagblaðið, „Huffington Post:“ „Aðgerðasinnar í Kína hafa skýrt frá bylgjukenndri aukningu heimilisofbeldis gegn konum, meðan milljónir manna hafa þurft að vera í sóttkví. Ofbeldiskarlarnir ... leggja sig fram um að einangra fórnarlömb sín og skerða tengsl við vinnufélaga, vini og fjölskyldu.“

Melissa hefur einnig eftir Leta Hong Fincher, sem skrifað hefur bók um kvenfrelsun í Kína, að hún hefði heyrt frá aðgerðasinnasystrum sínum, að fjölgað hefði neyðarhrópum frá konum, sem beittar væru ofbeldi heima við.

Melissa vísar einnig til Allison Randall, talsmanns samtaka, sem berjast gegn heimilisofbeldi. Hún hefur einnig kveðið sér hljóðs. Allison eru fórnarlömbin sérstaklega hugleikin: „Kórónaveiran getur leitt til þess, að fólk lokist inni í gildru ofbeldistengsla, í sjálfu sér ekki vegna veirunnar sjálfrar, heldur fjárhagslegra áhrifa hennar.“ Ruth Glenn, forseti samfylkingar gegn heimilisofbeldi í BNA, hefur, samkvæmt Melissu, einkum áhyggjur af því, að fjarlægðarreglan aftri konum frá því að sækja kvennaathvörfin heim.

Kynbundið ofbeldi og kvennaathvörf eru einnig upp á teningnum í Kanada: „Aukna ofbeldistíðni verður að vega upp á móti truflunum í þjónustu og lokunum. Forsvarsmönnum athvarfa fyrir konur á flótta undan ofbeldi [ástkarla sinna] hljóta að gefa sérstakan gaum að starfseminni [og] halda starfseminni gangandi í kjölfar kórónaveirunnar. Neyðist athvörfin til að loka dyrum sínum eða draga úr starfsseminni, gætu konur þurft að dvelja heima við hættulegar aðstæður í stað þess að njóta lífsbjargarþjónustu.“ Það gæti sem sé verið um líf og dauða að tefla. (Andrea Gunraj)

Hin norður-ameríska Tanya Selvaratnam velkist heldur ekki í vafa um, hvar konum er mest hætta búin. „Varhugaverðasti staður veraldar fyrir konu er heimili hennar. ... Venjulega bíða fórnarlömbin þess að vera í einrúmi, áður en aðstoðar er leitað. Þau bíða þess, að ofbeldismaðurinn hverfi til vinnu sinnar. Í leyni snúa þau sér til vina sinna. Þau sæta færis, þegar skyldum við barnaumönnun lýkur. Öll þessi tækifæri eru nú fyrir bí. ... Börnum, sem ekki sækja grunn- eða leikskóla, er einnig meiri hætta búin.“ (Tanya er með bók í burðarliðnum um eigin reynslu af ofbeldi af hálfu fyrrverandi eiginkarls.)

Títtnefnd Melissa færist nú meira í fang. Afspurnaraðferð víkur fyrir rannsóknum. Hún segir: „Rannsóknir benda til aukinnar tíðni heimilisofbeldis [ofbeldis karla gegn konum] í kjölfar náttúruhamfara eins og fellibylja. Trúlega stafar það af því, að ofbeldismennirnir hafa aukið aðgengi að fjölskyldum sínum. [Einnig] komast þeir upp með ofbeldið vegna þess, að hjálparkerfið er í lamasessi.“

Kvenfrelsarar á borð við Melissu, sem vilja sýna fram á, að ofbeldi karla gegn konum aukist við náttúruhamfarir, vísa gjarnan til tíu ára gamallar rannsóknar Julie A. Schumacher og félaga, sem rannsökuðu ofbeldi í nánum samböndum, eftir að fellibylurinn, Katrín (Katrina), reið yfir Louisiana-ríki í BNA.

Svo er það skilgreint: „Hugtakið, ofbeldi í nánum tengslum (interpersonal violence), tekur í grófum dráttum til áþreifanlegrar ýgi og ógnar um slíkt háttalag. Jafnframt er átt við víðtæka viðleitni til andlegs ofbeldis eða stjórnsemi gagnvart elskhuga núverandi eða fyrrverandi.“

Rannsóknin tók til fjögur hundruð fjörtíu og fimm para í syðsta hluta Mississippi. Efniviðurinn var sóttur í stærri rannsókn.

Í inngangi greinar sinnar segja höfundar m.a.: Þjóðtækt yfirlit frá BNA yfir hjón, bæði sem lifa samvistum eða hafa slitið þeim, og sambúendur, bendir til að árlega verði tæp 14% kvenna fyrir áþreifanlegu ofbeldi, en rúm 18% karla. Svipuð rannsókn, en miklu minni í sniðum, á hjónum í samvistum og sambúendum, benti til, að tæp 3% kvenna yrðu fyrir umtalsverðu, áþreifanlegu ofbeldi, en tæp 5% karla. Rúm 30% þeirra báru sig illa undan tilfinningalegu ofbeldi síðasta árið, en tæp 47% kvenna. Hvort tveggja karlar og konur, sem orðið hafa fyrir ofbeldi í nánum tengslum, sýna fleiri einkenni um andlega og líkamlega vanheilsu, heldur en fólk flest.

Fátt eitt er vitað um áhrif hamfara á tíðni illsaka í nánum samböndum, jafnvel þótt álag stuðli að því og hamfarir auki oft kíf fólks, sem fyrir þeim verður. Höfundum er einungis kunnugt um tvær rannsóknir í þessu efni. Önnur þeirra var gerð á konum í kjölfar „Floyd“ fellibylsins í Norður-Karólínu í BNA. Samkvæmt skýrslugjöf tæplega átta hundruð kvenna urðu þær ekki fyrir hamfaratengdu ofbeldi á heimavettvangi. Hin rannsóknin náði til sjötíu og sjö aðilja eða stofnana, sem störfuðu að heimilisofbeldi á hamfarasvæðum. Formælendur þeirra sögðu eftirspurn eftir þjónustu hafa aukist allt að ári eftir, að hamfarirnar voru yfirstaðnar.

Niðurstöður. Áður en rannsóknin átti sér stað höfðu tæp 44% kvenna skýrt frá andlegu ofbeldi, en rétt rúm 45% eftir. Sömu hlutföll fyrir karla voru tæp 37%, sem jukust í rétt rúm 43% hundraði. Áður en flóðbylgjan skall á, höfðu ellefu konur skýrt frá áþreifanlegu eða líkamlegu ofbeldi, en sautján, að þeim yfirstöðnum. Áþreifanlegt ofbeldi var í rannsókninni skilgreint sem að kýla, löðrunga, hrinda, stugga við og grýta hlutum.

Umreiknað hlutfallslega má komast að þeirri niðurstöðu, að umkvartanir sex kvenna nemi aukningu upp á 98%. Þetta er grundvöllurinn fyrir áróðri kvenfrelsaranna um tvöföldum líkamlegs ofbeldis gegn konum við náttúruhamfarir.

Ljóst mætti vera, að fullyrðingar kvenfrelsaranna hafa ekki við nein marktæk rannsóknarrök að styðjast. Raunum kvenna er hampað á kostnað karla. Dúettinn, Selma Samúelsdóttir og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, kynja nú sama söng. Það er átakanlegt, að kvenfrelsarar skuli við ríkjandi aðstæður enn leitast við að reka fleyg milli kynjanna. Það er miklu fleira, sem sameinar þau, en sundrar.

Mér er ljúft og skylt að ljúka lofsorði á heilbrigðisstarfsmenn beggja kynja.

Höfundur er ellilífeyrisþegi. Þýðingar eru hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×