Skoðun

Ekki hundleiðinlegt heldur mannskemmandi

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Umræðan um það hversu gott þeir hafi það sem afpláni dóma í íslenskum fangelsum dúkkar upp reglulega og orðræðan um fimm stjörnu hótel með öllum helstu þægindum fylgir í kjölfarið. Hneykslast er yfir því að dæmdir menn fái að horfa á sjónvarpið, fara í sturtu á hverjum degi og hafi aðgang að síma. Við sem störfum í þessum geira vitum auðvitað betur en mögulega örlar á skilningi hjá fleirum þessi dægrin.

Tæplega tíu þúsund íbúar landsins eru í sóttkví, og 850 einstaklingar í einangrun, sem stendur. Þar er ekki um eiginlega frelsissviptingu að ræða og í raun ekki hægt að bera aðstæður þeirra saman við dómþola sem sitja á bak við lás og slá. Aftur á móti eru kunnugleg stef sem birtast í viðtölum við þá sem eru í sóttkví og umfjöllun fjölmiðla um ástandið.

  • „Sakna þess að geta ekki faðmað fólkið mitt.“
  • „Þetta er hundleiðinlegt til lengdar.“
  • „Hvernig á að brjóta upp einsleitnina.“
  • „Öllum ljóst að einangrunin sem sóttkvíin felur í sér er streituvaldandi.“

Þetta eru fjögur nýleg dæmi úr fjölmiðlum, fyrri tvö úr viðtölum og seinni úr umfjöllun um sóttkví. Dæmin eru nær óteljandi. Fólki líður illa í sóttkví, það er einsleitt, streituvaldandi og hefur veruleg neikvæð áhrif á andlega heilsu. Samt hafa flestir í sóttkví allt til alls, eru á eigin heimili, oftar en ekki með fjölskyldu sína með sér og endalaust úrval af afþreyingarefni.

Skjólstæðingar Fangelsismálastofnunar hafa ekki ástvini sína sér við hlið. Þeir hafa raunar ekki fengið að sjá fjölskyldu eða vini síðan neyðarstigi var lýst yfir. Afplánunarfangar eru meira og minna inni í klefum sínum, vanvirkir vegna lamaðrar starfsemi í fangelsum. Það er ekki hundleiðinlegt til lengdar heldur mannskemmandi. Þegar ástandið er „eðlilegt“ er það að sama skapi bagalegt. Sálfræðiþjónusta er lítil sem engin, vinna af skornum skammti og hvatning til betrunar fjarlægur draumur. Fangelsin eru geymsla og enginn sem lokið hefur afplánun telur sig hafa haft það gott.

Afstaða vill hvetja aðstandendur og vini til þess að gefa þeim gaum sem sitja inni, hafa samband og reyna að létta lund þeirra. Þetta er erfiður tími fyrir alla en ekki síst þá sem eru í fangelsum landsins. Það er ekki eftirsóknarvert að vera í fangelsi venjulega en um þessar mundir hreint út sagt skelfilegt.

Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×