Handbolti

Þrjátíu ár frá sögulegri sjöu Framkvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framkonur fagnar Íslandsmeistaratitlinum á þessari mynd á síðum DV 28. mars 1990.
Framkonur fagnar Íslandsmeistaratitlinum á þessari mynd á síðum DV 28. mars 1990. Skjámynd/DV

Í dag eru liðin 30 ár síðan að kvennalið Fram í handbolta tryggði sér sjöunda Íslandsmeistaratitilinn í röð. Það var met sem hefur ekki enn verið slegið.

27. mars 1990 tryggði Framliðið sér Íslandsmeistaratitilinn með 20-13 sigri á Gróttu í Laugardalshöllinni. Framliðið var þannig með fimm stiga forskot á Stjörnuna þegar aðeins tvær umferðir voru eftir.

Guðríður Guðjónsdóttir var markahæst í leiknum með sex mörk en Arna Steinsen skoraði fimm mörk. Kolbrún Jóhannsdóttir var að vanda í miklum ham í markinu. Þessar þrjár voru lykilleikmenn í sigurgöngunni en Arna Steinsen var fyrirliði liðsins þennan vetur.

Rúmum mánuði síðar þá tryggði Framliðið sér bikarmeistaratitilinn með 16-15 sigri á Stjörnunni í bikarúrslitaleiknum. Þær urðu líka Reykjavíkurmeistarar og unnu því þrennuna þennan vetur.

Heimir Karlsson þjálfaði þetta Framlið en liðið hóf sigurgöngu sína undir stjórn Gústaf Adolfs Björnssonar sex árum fyrr.

Framliðið vann Íslandsmeistaratitil kvenna í handbolta 1984, 1985, 1986, 1987, 1988, 1989 og 1990 en allir unnust þessir Íslandsmeistaratitlar í deildarkeppni.

Framliðið vann síðan tvöfalt á fimm af þessum sjö tímabilum eða öllum nema 1987-88 (Valur bikarmeistari) og 1988-89 (Stjarnan bikarmeistari).

Þjálfarar Íslandsmeistaraliða Fram

1984: Gústaf Adolf Björnsson

1985: Gústaf Adolf Björnsson

1986: Gústaf Adolf Björnsson

1987: Guðríður Guðjónsdóttir

1988: Guðríður Guðjónsdóttir

1989: Steindór Gunnarsson

1990: Heimir Karlsson

Sigurganga Framliðsins endaði ekki fyrr en árið eftir þegar Stjarnan tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn 28. apríl 1991. Þá höfðu Framkonur verið búnar að vera Íslandsmeistarar samfellt frá 19. mars 1984 þegar þær tryggði sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn af þessum sjö. Það gerir samtals 2596 daga.

Framliðið varð samt bikarmeistari vorið 1991 sem þýddi að frá 1984 til 1991 hafði liðið unnið þrettán stóra titla, sjö Íslandsmeistaratitla og sex bikarmeistaratitla.

Með sjöunda Íslandsmeistaratitlinum í röð þá sló Framliðið met Valskvenna frá því á sjöunda áratugnum en með því liði spilaði einmitt Sigríður Sigurðardóttir, móðir Guðríðar Guðjónsdóttur markahæsta leikmanns Framliðsins í sigurgöngunni á níunda áratugnum.

Sjónvarpið fjallaði um 1985 í Handboltaliðum sögunnar og má sjá þá umfjöllun hér.

Flestir Íslandsmeistaratitlar í röð í handbolta kvenna:

7 - Fram (1984-1990)

6 - Valur (1964-1969)

5 - Ármann (1940-1944)

5 - Fram (1950-1954)

5 - Fram (1976-1980)

3 - Ármann (1947-1949)

3 - Valur (1971-1973)

3 - Víkingur (1992-1994)

3 - Stjarnan (2007-2009)

3 - Valur (2010-2012)Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.