Skoðun

Eigum við að hjálpast að eða kóra: Halelúja?

Þorvaldur Logason skrifar

14. mars síðastliðinn skrifaði ég ádeilu um þann hættulega halelújakór sem myndaður hafði verið í kringum stefnu okkar ágæta sóttvarnarlæknis og ríkisstjórnarinnar í COVID-19. Halelújakór sem reyndi að þagga niður í öllum gagnrýnisröddum með: „Þykist þú vita betur en þeir sem best vita?“

Ég setti upp dæmi um hvert þetta gæti leitt okkur. Hér gæti verið ríkisstjórn í anda lýðskrumarans Borisar Johnson sem segði þjóðinni að mynda ætti hjarðónæmi gegn veirunni og leyfa henni að smita 60% þjóðarinnar. Viðbrögð meðvirkniskórsins á Íslandi yrðu kannski þau sömu: Halelúja!

15. mars, birtist svo sóttvarnarlæknir í Silfri Egils og tilkynnti þjóðinni, að mynda ætti hjarðónæmi gegn veirunni! Ég trúði hvorki augum né eyrum en rauk til sama dag og breytti háðsádeilunni í grafalvarlega ádeilu: Við-þurfum-smit-stefna stjórnvalda skýrði hve seint landsvæði voru skilgreind sem hættusvæði, hversu seint og ónákvæmt var gripið til sóttkvíunar og hversu frjálslega allt var opið lengi vel.

16. mars dró sóttvarnarlæknir allt til baka og kannaðist hvorki við orð sín né fyrri stefnu og birti skýringu, samhljóma skýringum Breta: ‚Einungis fræðilega pælingar um bólusetningu,‘ var línan. Það varð allt brjálað í breskum fjölmiðlum yfir sambærilegri sögufölsun (sjá t.d. Good Morning Britain) en hér hrópaði þjóðarkórinn: Halelúja! – ég varð svo gáttaður á ruglinu að ég hætti alfarið við að fá skrifin birt.

17. mars syrti enn í álinn þegar fréttaskýring birtist á RÚV þess efnis að stjórnin og sóttvarnarlæknir hefðu aldrei ætlað að fara hjarðónæmisleiðina og ekki Bretar heldur! Allt hafi verið einn allsherjar misskilningur! Og þá var mér eiginlega öllum lokið. Í fréttinni var því meira segja haldið fram að 200 vísindamenn Breta sem skrifuðu undir áskorun til Borisar Johnson um að hætta við hjarðónæmisleiðina hefðu bara misskilið allt saman, allan tímann!

Það blasir við að Ísland og Holland, Bretland, Svíþjóð og jafnvel öll Vesturlönd ætluðu hjarðónæmisleiðina en breyttu um kúrs vegna katastrófíunnar á Ítalíu. Og nú sitja flestar þessar ríkisstjórnir í sömu súpunni, að fást við það erfiða áróðursverkefni að skýra út fyrir þjóð sinni að að aldrei hafi verið hugmyndin að lágmarka COVID-19 smit heldur beinlínis að leyfa þau innan vissra marka.

Um öll Vesturlönd hefur frá upphafi COVID-faraldursins farið fram opin, gagnrýnin, gegnsæ og upplýst rökræða um stefnu stjórnvalda – í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum nema á Íslandi. Íslenskt samfélag, eitt samfélaga, hefur reynt af öllum mætti að þagga niður í öllum þeim sem efast eða gagnrýna sóttvarnarstefnu stjórnvalda. Á Íslandi varð andrúmsloftið strax í upphafi kúgandi eins og í einræðisríki. Á sama tíma hrósar leiðtogi helsta valdaflokksins sér af því að hafa framleitt sátt af „pólitískri list“ og ekki að ástæðulausu. Ríkisstjórn Íslands hefur markvisst skapað þá ímynd að óskeikulir ópólitískir sérfræðingar stjórni landinu út frá strangvísindalegum náttúrulögmálum. Það er auðvitað pínulítið hlægilegt, eftir allt sem er á undan gengið í íslensku samfélagi, að fullyrðingar sérfræðinga um stórpólitísk málefni séu meðhöndlaðar eins og algildur sannleikur sem enginn megi gagnrýna nema hugsanlega þeir sem hafi samsvarandi eða hærri prófgráðu! En það er ekki aðeins hlægilegt, það er líka skaðlegt og grefur í raun undan virðingu fyrir sérfræðiþekkingu almennt.

Margháttuð þekking kemur að miklu gagni þegar marka á stefnu í sóttvörnum vegna þess hve varnirnar eru að miklu leyti heilbrigð skynsemi (þvoið hendurnar!) og hve vítt svið mannlegrar þekkingar þær koma inn á. Bill Gates benti á, eftir Ebólafaraldurinn, að heiminum vantaði fyrst og fremst kerfi - og hann var ekki a tala um Windows 8! Verkfræðingar og kerfisfræðingar gætu verið þeir bestu í að stjórna sóttvörnum landsins, ótrúlegt en satt! Fullyrðingar sóttvarnafræðanna byggja á rannsóknum í félagsfræði, sálfræði, stjórnmálafræði og þjóðhagfræði og fjölda annara sviða – án þess að eftir því hafi verið tekið sérstaklega.

Sú opna og upplýsta samræða sem fer fram um öll Vesturlönd, nema á Íslandi, er fær um að virkja meginþorra almennings í baráttunni við sameiginlegt vandamál – þá og því aðeins að stjórnir landsins upplýsi almenning um hugmyndafræði sína og stefnu – en láti það ekki vera sitt fyrsta verk að setja rökræðuna í sóttkví og fjöldaframleiða hlýðni.

Orð Bill Gates eru áhugaverð. Öll höfum við lent í því að villur hafa komið upp við vinnu okkar í tölvunni. Flest reynum við þá að átta okkur á villunni – og erum ekki að þykjast vita betur en sérfræðingarnir – heldur erum við í raun að hjálpa til við að bæta kerfið. Þannig hjálpast tugmilljónir ósérfróðra manna að á hverju ári við að bæta flókin Microsoft kerfi - og veitir ekki af! Öll flókin nútíma kerfi, eins lýðræðið og sóttvarnarkerfið, þurfa aðkomu mikils fjölda fólks með fjölbreytta þekkingu og ekki síst vanþekkingu(!), til þess að sannreyna og þróa kerfið.

Vísindaheimspekin er eitt frábært tæki til að rannsaka kerfi, eins og vísindalega þekkingu. Vinsæl aðferð heimspekinnar er sú að greina vandlega fullyrðingar, frumforsendur og rökfærslur í leit að þekktum og augljósum villum. Þetta geta allir gert án þess að vera sérfræðingar. Skoðum t.d. nokkrar þekktar villur sem ríma við COVID málflutning stjórnvalda.

Fyrst villan um pólitískt hlutleysi (sbr. hagfræðin fyrir hrun).

Stjórnvöld halda því fram að sú ákvörðun, brátt nær allra þjóða heimsins, að loka landamærum sínum vegna COVID sé óvísindaleg pólitísk ákvörðun en aftur á móti þeirra eigin ákvörðun (og reyndar Svía) um að halda landamærunum opnum sé vísindaleg og ópólitísk ákvörðun!

Þó blasir við að sóttkví má alltaf rökstyðja út frá sóttvarnarvísindum og ferðafrelsi er alltaf nátengt pólitískum og efnahagslegum hagsmunum (svona blind sjálfsupphafning er líka nátengd e. exceptionalism).

En er þá ríkisstjórnin og sóttvarnarlæknir að ljúga? Og kórinn kannski að haleljúga? Ekki endilega.

Önnur fræg villa vísindanna er nefnilega framsetningarvandinn. Vandinn þegar vísindin eru einfölduð í framsetningu fyrir almenning. Þegar sóttvarnarlæknir segir að engu skipti þótt landamærin séu opin, eftir að faraldurinn er kominn af stað í landinu, þá er hann að einfalda tölfræðilega fullyrðingu. Lokun hefur áhrif en áhrifin eru svo lítil að þau skipta ekki máli, tölfræðilega í stóra samhenginu, jafnvel þó þau gætu kostað mannslíf. Staðhæfingunni er breytt í framsetningu og ákvörðun um að loka landamærum er þá rangtúlkuð sem óvísindaleg, sem hún er auðvitað ekki.

Þriðja villan er afneitun á hugmyndafræði (nátengd forsendublindunni). Sóttvarnarhugmyndafræðin/stefnan nú er að „fletja út kúrfuna“, dreifa smitum yfir lengra tímabil en ekki hindra smit eins og mögulegt er. Þetta er hjarðónæmisleiðin sem sóttvarnarlæknir afneitar. Afneitunin byggist á leik með vísindatungumálið þar sem læknirinn passar sig vandlega á að skýra ekki út allt dæmið – hann er að tala um ónæmisleið en forðast að skýra hana hjarðónæmisleið (sem er lýsing á aðeins nákvæmari fyrirbæri) því þá yrði hann að viðurkenna stefnu sína og mæta gagnrýni almennings.

Fjórða villan er forsendublindan sem varð heimsfræg í Hruninu þegar hagfræðinga-sérfræðingarnir skildu hvorki upp né niður í því að spámódelin þeirra spáðu rangt um bókstaflega allt – af þeirri einföldu ástæðu að stórspilling var ekki hluti af forsendum hagfræðinnar (skrýtið!), grunnforsendur gjörbreyttust og fjármagnskerfið hrundi því frá grunni.

Á sama hátt; þegar því er haldið fram að það þurfi að fá smit út í samfélagið, annars blossi veiran upp strax aftur þegar opnað er, þá er reiknað með, í ljósi sögunnar, að áhrifarík lyf séu ekki væntanleg - þrátt fyrir að forsendur sé gjörbreyttar vegna þess að heimurinn hefur ekki staðið frammi fyrir slíkri vá í yfir 100 ár og það afl sem nú er lagt í rannsóknir á einni veiru á sér enginn fordæmi (sjá t.d. umfjöllun í Kveik 24.03).

Í fimmta og síðasta lagi mætti nefna þá ágalla á rökfærslum vísindanna sem allir geta tekið þátt í að laga. Tökum dæmi: Sóttvarnarlæknir fullyrðir að leikskólum sé haldið opnum fyrir starfsfólk heilsugæslunnar og lögregluna – en mótrökin blasa við: Væri þá ekki rétt að halda þeim opnum aðeins fyrir þetta lykilfólk í baráttunni? Eykur það ekki hættunni á sóttkví leikskólastarfsfólks, og vinnur það þá ekki gegn markmiðinu, ef börn annarra eru þar líka?

Enn önnur einföld og áhrifarík leið fyrir ekki-sérfræðinga til að „bæta kerfið“ er svo að benda á önnur sérfræðiálit, eins og Inga Snæland gerði fyrir nokkrum vikum þegar hún lagði til að loka ætti landinu en var þá úthrópuð sem rugluð kelling! Þau hróp helelújakórsins gegn Ingu Snæland hljóma ekki gæfulega í dag, því nú stjórnar ruglaðasta kelling Íslands flestum stærstu ríkjum heimsins – pólitískt og óvísindalega, eins og hver annar kellingarskussi en ekki sérfræðingur.

Í stað þess að halelúja öll í kór getum við hjálpast að við að bæta sóttvarnarkerfi Íslands. Fyrsta skrefið er að fjölmiðlar og samfélagsmiðlar opni rými fyrir upplýsta samræðu þar sem bestu rökin fá að lifa og njóta sín, burt séð frá því hver setti þau fram. Allir eiga að fá að stíga inn og benda á hvað má betur fara í sóttvörnum landsins – sýni þeir sömu öðrum virðingu og komi fram af heilindum. Látum ekki COVID-kóara hræða okkur inn í halelújakórinn! Nú liggur mikið við. Gerum eins og allar aðrar lýðræðisþjóðir: Höldum áfram að hugsa!

Höfundur er heimspekingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×