Handbolti

Liðið sem var sæti neðar fékk að fara upp | „Algjörlega fáránlegt“

Sindri Sverrisson skrifar
Halldór Stefán Haraldsson var með Volda í 3. sæti þegar mótið í Noregi var blásið af.
Halldór Stefán Haraldsson var með Volda í 3. sæti þegar mótið í Noregi var blásið af. MYND/VOLDA

Volda, liðið sem Halldór Stefán Haraldsson þjálfar í Noregi, var í 3. sæti næstefstu deildar kvenna í handbolta þegar mótið var blásið af vegna kórónuveirunnar. Hins vegar mun liðið í 4. sæti fara upp í úrvalsdeild en ekki Volda.

Norska handknattleikssambandið ákvað að þrjú lið úr 1. deild myndu komast upp í úrvalsdeild. Jafnframt var ákveðið að það yrðu þau þrjú lið sem flest stig hefðu fengið að meðaltali í sínum leikjum á leiktíðinni, vegna þess að mismunandi er hve mörgum leikjum liðin höfðu lokið. Volda var með 29 stig eftir 21 leik en Rælingen með 28 stig eftir 20 leiki. Það þýðir að meðaltalið var 0,019 stigum betra hjá Rælingen sem var þar með boðið úrvalsdeildarsæti.

Þriðja sæti 1. deildar myndi vanalega gilda sem umspilssæti gegn liði úr úrvalsdeildinni, og Halldór Stefán segist í samtali við mbl.is því ekki hafa kallað sérstaklega eftir því að Volda fengi að fara upp um deild þegar ljóst var að ekki yrði meira spilað á tímabilinu. Hins vegar er hann afar ósáttur við að Oslóarlið Rælingen skyldi fá úrvalsdeildarsæti á kostnað smábæjarliðsins Volda:

„Maður er í raun bara sjokkeraður því manni finnst í raun bara á manni brotið ef svo má segja. Við vorum alls ekki að kalla neitt eftir því að við myndum fara upp um deild yfir­höfuð. Okkur hefði fundist eðlilegt, fyrir fram í það minnsta, að þar sem við vorum í þessu svokallaða umspilssæti þegar leiktíðinni var slaufað þá yrði það bara dæmt dautt og gilt og aðeins tvö lið myndu fara upp um deild. Það að liðið sem er svo í fjórða sæti B-deildarinnar skuli fara upp um deild er algjörlega fáránlegt,“ sagði Halldór Stefán við mbl.is.

Stig Quille hjá norska handknattleikssambandinu segist hafa skilning á afstöðu Volda.

„Við reyndum að finna aðferð sem væri hægt að beita á allar deildirnar og væri réttlátust í heildina. Volda olli vandræðum sem við vörðum miklum tíma í að skoða. Ákvörðunin var ekki einföld en við viljum meina að þetta sé besta aðferðin ef við viljum beita sömu aðferð á allar deildir,“ sagði Quille við TV2. Sagði hann ljóst að hægt væri að áfrýja ákvörðun sambandsins og það hyggjast forráðamenn Volda gera.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.