Handbolti

Breki í fótspor föður síns og æskuvinar

Sindri Sverrisson skrifar
Breki Dagsson er kominn í búning Fram.
Breki Dagsson er kominn í búning Fram. MYND/FRAM

Framarar hafa fengið mikinn liðsstyrk fyrir næstu leiktíð í Olís-deild karla í handbolta en þeir hafa samið við Breka Dagsson, besta leikmann Fjölnis á síðustu leiktíð.

Breki skoraði 107 mörk í 18 leikjum fyrir Fjölni sem féll úr Olís-deildinni. Hann var því í 10. sæti yfir markahæstu menn deildarinnar þegar keppni var blásin af vegna kórónuveirufaraldursins. Þá átti hann 78 stoðsendingar, samkvæmt HB Statz og aðeins Haukur Þrastarson átti fleiri.

Í tilkynningu frá Fram er lýst yfir mikilli ánægju með komu Breka og þess getið að faðir hans, Dagur Jónasson, hafi leikið með Fram á árum áður með góðum árangri.

Æskufélagi Breka, Arnar Snær Magnússon, hefur ákveðið að halda áfram með Fram en þeir Breki skrifuðu hvor um sig undir samning til þriggja ára. Arnar skoraði 42 mörk í 19 leikjum fyrir Fram í Olís-deildinni í vetur, en hann er hægri hornamaður sem einnig getur leyst stöðu skyttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×