Viðskipti erlent

Telur ólíklegt að bóluefni AstraZeneca fái leyfi í janúar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bólusetning með bóluefni Pfizer og BioNTech hófst í dag hér á landi. Beðið er eftir því að bóluefni frá fleiri framleiðendum fái grænt ljós í Evrópu.
Bólusetning með bóluefni Pfizer og BioNTech hófst í dag hér á landi. Beðið er eftir því að bóluefni frá fleiri framleiðendum fái grænt ljós í Evrópu. Vísir/Vilhelm

Ólíklegt er að Lyfjastofnun Evrópu geti samþykkt markaðsleyfi fyrir bóluefni AstraZeneca gegn Covid í janúar á næsta ári, ef marka má orð aðstoðarframkvæmdastjóra stofnunarinnar.

Reuters greinir frá og hefur eftir aðstoðarframkvæmdastjóranum Noel Wathion að AstroZeneca hafi enn ekki sent inn umsókn til stofnunarinnar vegna bóluefnisins, sem oftar en ekki er nefnt Oxford-bóluefnið.

Wathion segir að stofnunin hafi fengið ákveðnar upplýsingar um bóluefnið en þörf sé á frekari upplýsingum, auk þess sem að AstraZeneca þurfi að sækja formlega um að fá markaðsleyfi, sem hafi enn ekki verið gert.

Þetta geri það að verkum að ólíklegt sé að hægt verði að afgreiða slíka umsókn í janúar.

Búist er við því að bresk yfirvöld samþykki notkun bóluefnisins á næstu dögum, svo hefja megi notkun þess þar í landi.

Rannsóknir á virkni bóluefnisins gefa til kynna að það veiti allt að 90 prósent vernd gegn Covid-19.

Samningar sem Ísland er aðili að gera ráð fyrir að hingað til lands berist 230 þúsund skammtar af bóluefni AstraZeneca, sem eiga að duga fyrir 115 þúsund einstaklinga. Á vef stjórnarráðsins segir að fyrirtækið geri ráð fyrir að afhenda skammta í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.


Tengdar fréttir

Virknin 70% en skammtastærðinni mögulega breytt

Bóluefni AstraZeneca og vísindamanna við Oxford-háskóla hefur 70% virkni ef horft er til heildarniðurstaða prófana. Virknin reyndist 90% hjá litlum hluta þátttakenda sem fékk óvart ranga skammtastærð en hjá meirihlutanum reyndist virknin 62%.

Stefna að því að bólu­setja milljónir Breta í janúar

Útlit er fyrir að bóluefni AstraZeneca og Oxford fari í dreifingu í Bretlandi þann 4. janúar næstkomandi. Bóluefnið hefur enn ekki verið samþykkt af yfirvöldum þar í landi en búist er við því heilbrigðisyfirvöld gefi grænt ljós á allra næstu dögum.

Bólusett hvert á fætur öðru í matsalnum

Bólusetning starfsmanna Landspítalans hófst í matsal Landspítala í Skaftahlíð 24 klukkan 10 í morgun. Síðar í dag hefst bólusetning á Landakoti og Vífilsstöðum. Reiknað er með því að um 770 starfsmenn verði bólusettir á spítalanum í dag og á morgun.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×