Handbolti

Kristín var valin í íslenska landsliðið á undan því sænska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristín Þorleifsdóttir valdi frekar að spila fyrir sænska landsliðið en það íslenska.
Kristín Þorleifsdóttir valdi frekar að spila fyrir sænska landsliðið en það íslenska. getty/Jan Christensen

Handboltakonan Kristín Þorleifsdóttir var valin í íslenska landsliðið áður en hún var valin í það sænska.

Kristín var næstmarkahæsti leikmaður Svía á EM 2020 með nítján mörk í sex leikjum. Hún á íslenska foreldra en hefur alltaf búið í Svíþjóð. Kristín lék þó með yngri landsliðum Íslands og ekki mátti miklu muna að hún hefði leikið fyrir íslenska A-landsliðið.

„Ég var reyndar valin í íslenska landsliðið áður en ég var valin í sænska landsliðið í fyrra. Ég átti þá að koma í æfingabúðir með Íslandi en áður en kom að því var ég valin í sænska landsliðið og valdi frekar Svíþjóð. En það hefði samt verið heiður að spila fyrir Ísland,“ sagði Kristín í samtali við RÚV.

Skyttan öfluga talar ekki mikla íslensku og útskýrir það þannig: „Ég er fædd og uppalin í Svíþjóð og hef aldrei búið á Íslandi. Ég hef heldur aldrei lært íslensku. En það er mömmu minni og pabba að kenna því þau töluðu aldrei íslensku við mig á heimilinu. En kannski læri ég íslensku einhvern daginn. Ég vona það, því ég skil heilmikið í íslensku,“ sagði Kristín.

Í samtali við Vísi lýsti Sigrún Andrésdóttir, móðir Kristínar, dóttur sinni sem ekta víkingi með gott hugarfar.

„Hún er stór og sterk. Ekta víkingur og með föst skot,“ sagði Sigrún en hún og eiginmaður hennar, Þorleifur Sigurjónsson, eiga fjögur börn.

Kristín segist í samtalinu við RÚV ekki hafa búist við að spila mikið á EM. „Ég hafði ekki gert mér miklar væntingar. Fyrst snerist þetta bara um að vera með í liðinu á EM. Við vorum tvær frekar nýjar í liðinu og ég bjóst ekkert endilega við því að spila mikið. En það var mjög ánægjulegt að fá svona mikinn spilatíma,“ sagði hún.

Kristín, sem er 22 ára, leikur með Randers í Danmörku. Hún lék áður með Skånela og Höörs í Svíþjóð.

Svíar enduðu í 11. sæti af sextán liðum á Evrópumótinu sem lýkur um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×