Körfubolti

Móðir Vanessu, ekkju Kobes, fer í mál við hana og vill fá háar fjárhæðir fyrir að passa barnabörnin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vanessa Bryant flytur ræðu á minningarathöfn um Kobe Bryant.
Vanessa Bryant flytur ræðu á minningarathöfn um Kobe Bryant. getty/Kevork Djansezian

Vanessa Bryant, ekkja Kobes Bryant, hefur greint frá því að móðir hennar hafi farið í mál við hana og sagt að hún skuldi sér háar fjárhæðir, meðal annars fyrir að passa barnabörnin.

Sofia Urbieta Lane segir að tengdasonur sinn, Kobe Bryant, hafi lofað að sjá um sig fjárhagslega og hún hafi starfað hjá Bryant-fjölskyldunni um áraraðir sem eins konar aðstoðarkona og barnfóstra án þess að fá greitt fyrir það. 

Móðirin krefur dóttur sína um tæplega hundrað Bandaríkjadali á tímann fyrir að passa barnabörnin tólf tíma á dag í átján ár. Það gera fimm milljónir Bandaríkjadala og þá vill Sofia einnig fá íbúð og bíl frá Vanessu.

Sofia heldur því fram að Vanessa hafi ekki virt óskir Kobes um að sjá um sig og hrakið sig burt af heimili sínu. Dóttirin segir það af og frá. Hún segir að Sofia hafi búið frítt í íbúð í eigu Bryant-hjónanna í tuttugu ár og að hún hafi bara einstaka sinnum passað barnabörnin.

Vanessa segist vera særð vegna málsóknar móður sinnar og að hún skeyti engu um hvaða áhrif þetta hafi á hana og barnabörnin. Hún bætti við að móðir sín vildi lifa á henni það sem eftir væri. Vanessa segir jafnframt að Kobe hafi ekki lofað tengdamóður sinni neinu og ef hann væri á lífi væri hann svo vonsvikinn með framkomu hennar.

Kobe lést í þyrluslysi ásamt þrettán ára dóttur sinni, Giönnu, þann 26. janúar. Talið er að eigur Kobes, sem Vanessa hefur nú umsjón með, séu metnar á 600 milljónir Bandaríkjadala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×