Körfubolti

Eigandi Dallas Mavericks býst við því að tapa tólf milljörðum á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Cuban með Luka Doncic þegar Slóveninn var kjörinn besti nýliðinn í NBA-deildinni í fyrra.
Mark Cuban með Luka Doncic þegar Slóveninn var kjörinn besti nýliðinn í NBA-deildinni í fyrra. Getty/Joe Scarnici

Mark Cuban, eigandi NBA-liðsins Dallas Mavericks, er búinn að undirbúa sig fyrir það að tapa gríðarlegum fjárhæðum á 2020-21 tímabilinu vegna kórónuveirunnar.

NBA tímabilið hefst rétt fyrir jól og að þessu sinni munu liðin spila í sínum heimahöllum en ekki í NBA búbblu. Það breytir ekki því að kórónuveiran mun áfram setja mikinn svip á deildina og lítið verður um áhorfendur í flestum höllum.

Mark Cuban, hinn litríki eigandi Dallas Mavericks, ræddi rekstur NBA liðs í miðjum heimsfaraldri í útvarpsþættinum The Hardline á íþróttarás KTCK-AM útvarpsstöðvarinnar. Cuban var meðal annars spurður út í erfitt rekstrarumhverfi í þessu ástandi.

„Mun ég tapa fullt af peningum á þessu tímabili? Já, það er enginn spurning um það. Meira en hundrað milljónum dollara þegar allt verður gert upp? Já engin vafi á því,“ sagði Mark Cuban. Hundrað milljónir dollara eru meira en tólf milljarðar íslenskra króna.

„Sem betur fer þá er ég í þeirri stöðu að ég hef efni á þessu. Ég mun halda áfram að borga okkar starfsfólki sem er það rétta í stöðunni,“ sagði Cuban.

„Þrátt fyrir að ég geti þetta núna þá þurfum við að komast aftur í að sila okkar venjulega tímabil. Við munum ekki byrja mótið aftur í desember. Við vitum að fólk vill fá sportið á þeim tíma sem það er vant því að fá sportið sitt,“ sagði Cuban.

„NBA deildin á að byrja í október og nóvember og enda í júní. Með því að byrja tímabilið í desember og spila færri leiki þá leggjum við grunninn að eðlilegu 2021-22 tímabili,“ sagði Cuban.

„Vonandi getum við lifað okkar venjulega lífi eftir að bólusetningunni er lokið og að allt verði þá í lagi,“ sagði Cuban. Cuban býst við miklum áhuga á leikjum Dallas þegar fólk má aftur fara að fylla íþróttahallir.

„Ég veðja á það að fólk verði orðið svo þreytt á því að hanga heima hjá sér að það mun allt verða brjálað þegar það kemst aftur á leiki. Það munu allir vilja fá tækifæri til að horfa á Luka [Doncic] og [Kristaps Porzingis] spila sem og allt Dallas Mavericks liðið. Það er óvissa með næstu mánuði en það verður svakalegt fjör hjá okkur þegar við verðum búin að fá bóluefnið,“ sagði Mark Cuban.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×