Handbolti

Viggó valinn leik­maður mánaðarins í Þýska­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viggó Kristjánsson átti frábæran nóvembermánuð í liði Stuttgart.
Viggó Kristjánsson átti frábæran nóvembermánuð í liði Stuttgart. Tom Weller/Getty Images

Viggó Kristjánsson, leikmaður Stuttgart, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta var í dag valinn besti leikmaður nóvembermánaðar.

Viggó hefur verið frábær í liði Stuttgart það sem af er vetri og átti hreint út sagt magnaðan nóvembermánuð. Liðið er sem stendur í 5. sæti deildarinnar með 13 stig eftir 11 leiki, fimm stigum á eftir toppliði Kiel.

Stuttgart hóf mánuðinn illa og tapaði gegn Erlangen 11. nóvember með níu marka mun, lokatölur 34-25. Viggó var markahæstur í þeim leik með sex mörk. Hann var markahæstur með 10 mörk í næsta leik liðsins gegn Hannover-Burdgorf, sá leikur vannst 31-26.

Liðið tapaði næsta leik gegn Flensburg. Lokatölur 34-30 Flensburg í vil en Viggó átti samt enn einn stórleikinn, endaði hann markahæstur í liðinu með 11 mörk. Hann skoraði svo fimm mörk í 12 marka sigri á Nordhorn-Lingen í næstu umferð.

Deildin heldur rafræna kosningu þar sem hægt er að kjósa og endaði það svo að Viggó hlaut 48 prósent atkvæða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.