Skoðun

Dóm­stólar í vinnu hjá Arion banka

Ásthildur Lóa Þórsdóttir skrifar

Eftirfarandi bréf var sent á bankastjóra Arion banka í gær. Efni bréfsins skýrir sig sjálft en spurningin sem hlýtur að vakna er:

Af hverju fara sýslumenn og dómarar ekki að lögum ef lögin þjóna ekki hagsmunum bankanna?

Hér skal tekið skýrt fram að ENGIN VAFI leikur á fyrningu umræddra vaxta í þessu máli. Lögin um þá eru skýr og mál okkar hjóna tikkar í öll boxin varðandi þá.

Af hverju þurftum við þá yfirleitt að leita réttar okkar með þessum hætti?

Af hverju tók sýslumaður ekki tillit til fyrningu vaxta eins og honum ber lögboðin skylda til?

Af hverju voru dómarar Landsréttar tilbúnir til að fórna mannorði sínu og trausti réttarins með því að ljúga í dómsorði?

Af hverju samþykkir Hæstiréttur lygarnar með því að sneiða hjá þeim í forsendum ákvörðunar þegar áfrýjunarleyfi er hafnað og gjaldfella þar með enn frekar ásýnd réttarins?

Af hverju fann endurupptökunefnd ekki tíma á 10 mánuðum, til að úrskurða í jafn einföldu máli og þessu, þó hún fyndi sér tíma í tví- eða þrígang til að skipta út fólki í nefndinni og senda okkur bréf þar að lútandi?

Af hverju þurfti að skipta svona oft um fólk í nefndinni? Þorði fólk ekki að úrskurða gegn djúpríkinu?

Ég vil meina að hér sé um grófa misbeitingu á því valdi sem viðkomandi embættismönnum hefur verið falið af íslenska ríkinu.

Ég vil meina að hér sé um trúnaðarbrot í starfi að ræða sem varðar við lög.

Þetta er eitt mál og mantran er sú að “ríkið” megi aldrei “skipta sér af málefnum einstaklinga”.

En í því felst gríðarleg þversögn (og flótti undan ábyrgð) því það er nákvæmlega í málefnum einstaklinga sem brot sem þessi eru framin og það skal engin ímynda sé að þetta sé eina tilvikið sem um ræðir, auk þess sem EITT svona mál er EINU OF MIKIÐ.

Til að koma í vega fyrir að brot sem þessi á réttindum einstaklinga endurtaki sig, verða til þess bærir aðilar eins og t.d. dómstólar, saksóknari, Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, að skoða svona mál og draga viðkomandi embættismenn til ábyrgðar fyrir brot í opinberum störfum.

Ég mun kæra þetta mál og draga íslenska ríkið til ábyrgðar, en staðreyndin er sú að ég á ekki að þurfa þess. Ríkið á að láta sig þetta varða og taka á þessu máli að eigin frumkvæði í stað þess að grípa til varna fyrir ósómann sem unninn er í skjóli þess.

Íslenska ríkið ber ALLA ábyrgð í þessu máli, Arion banki er “bara” að hirða molana sem honum eru færðir á silfurbakka af vanhæfum og spilltum embættismönnum.

Hér fyrir neðan er bréfið sem sent var á bankastjóra Arion banka, Benedikt Gíslason.


Sæll Benedikt,

Í ljósi þess að Arion banki glímir nú við þann vanda að eigið fé bankans sé of mikið teljum við vera einstakt tækifæri fyrir bankann að endurgreiða fé og leiðrétta það sem hann kann að hafa oftekið af fólki þegar verr stóð á.

Í nóvember og desember á síðasta ári gengum við hjónin frá samningum við bankann til að kaupa til baka af ykkur fasteign okkar og heimili að XXX í Garðabæ.

Hér verður ekkert farið í það hvernig eignin komst í hendur bankans en hvað svo sem má segja um það ferli allt, er algjörlega ljóst og hafið yfir allan vafa að ekki var gert ráð fyrir þeim hluta vaxta sem voru fyrndir í uppgjöri okkar við bankann.

„Fyrndir vextir“ eru ekki eitthvað sem er „umdeilanlegt“ í lögum eða á „gráu svæði“. Allt sem að þeim lýtur er skýrt skilgreint í lögum sem eiga án nokkurs vafa við í okkar tilviki.

Sannanlega fyrndir vextir af ætlaðri skuld okkar við bankann námu um 12 milljónum króna.

Yfirlit yfir staðreyndir málsins

  • Sýslumaður brást skyldu sinni. Þegar sýslumaður brást þeirri skýru frumkvæðis- og lagaskyldu sinni að taka tillit til fyrningar vaxta við úthlutun söluverðs eftir uppboð, fórum við hjónin með úthlutunina fyrir dómstóla.

  • Ferlið fyrir dómstólum - Það var aldrei hrakið fyrir dómstólum að umræddir vextir væru fyrndir, enda öll lagaákvæði þar að lútandi mjög skýr. Dómstólar komu sér einfaldlega undan því að úrskurða um fyrningu vaxtanna - með lygum.

    • Héraðsdómur: Fyrning vaxta staðfest en útreikningar rangir - Í stuttu máli þá unnum við málið í héraði en engu að síður voru útreikningar dómara of háir okkur í hag þannig að eðlilega áfrýjaði Arion banki dómnum til Landsréttar.

    • Landsréttur: Dómarar koma sér hjá úrskurði með lygi - Landsréttur kom sér undan því að úrskurða með því að líta einfaldlega fram hjá málsástæðunni um fyrningu vaxta á þeirri forsendu að hún væri of seint fram komin. Þetta er því miður ekki hægt að kalla annað en rangfærslu (lygi) af hálfu dómara Landsréttar, því fyrning vaxta var í raun megin málsástæðan frá upphafi og ástæða þess að málið var höfðað. Annað er það að dómarar málsins tóku ekkert tillit til þess að það var sýslumaður sem brást skyldum sínum. Með lyginni létu þeir eins og frumkvæðisskylda sýslumanns skipti engu máli og lögðu ábyrgðina á skyldum hans yfir á okkur með rangfærslum sem láta að því liggja að ef VIÐ hefðum bara staðið rétt að málum væri hægt að dæma okkur í hag. Þannig í var algjörlega litið framhjá þeirri staðreynd að ef sýslumaður hefði sinnt lögboðnum skyldum sínum, hefðum við aldrei þurft að höfða umrætt mál! Það er nógu slæmt að tapa, en þó ásættanlegt séu forsendur réttar. En að fá ekki efnislega úrlausn um megin málsástæðuna og vera um leið dæmd til að greiða 900.000 fyrir „ekki úrskurðinn“, sem þar að auki er byggður á rangfærslum og lygum og maður veit að maður er miklum órétti beittur, er virkilega sárt. Dómarar sem þekkja hugtakið „réttlæti“ vita að hvort sem ímynduðum formsatriðum hefur verið fullnægt eða ekki, þá eru lög lög og leyfa sér ekki svona framkomu gagnvart þeim sem leita réttlætis hjá þeim. Við viljum því meina að þeir hafi með þessum úrskurði framið gróf brot í starfi, brot sem varða við lög.

    • Hæstiréttur: Fjallaði ekki um megin málsástæðuna - Dómarar Hæstaréttar ákváðu einfaldlega að láta eins og málsástæðan um fyrningu vaxta væri ekki til – þó málið fjallaði um hana. Þeir tóku því enga afstöðu til hennar og höfnuðu málskotsbeiðni. Að mati Hæstaréttardómaranna voru 12 milljónir ekki heldur nógu „miklir hagsmunir“ til að réttlæta nýjan úrskurð (væntanlega) byggðan á réttum forsendum.

    • Endurupptökunefnd: Málið dregið til baka að kröfu Arion banka - Við þetta varð engan veginn unað og leitað til endurupptökunefndar en málið velktist á einhvern furðulegan hátt fyrir þeirri nefnd í nær 10 mánuði. Málavextir voru ekki flóknir og málsskjöl fá, en án þess að taka neina afstöðu sendi nefndin okkur a.m.k. tvö béf um mannaskipti. Einhver tregða virtist vera hjá nefndinni að komast að niðurstöðu og hún hafði málið á sinni dagskrá í nær 10 mánuði án þess að skila neinu. Skilyrði fyrir samningum við Arion banka var að við myndum draga mál okkar hjá endurupptökunefnd til baka.

Þegar hér var komið vorum við í raun varnarlaus gagnvart Arion banka. Okkar eina von var niðurstaða endurupptökunefndar, en hún lét bíða eftir sér og kom að lokum aldrei.

Þegar saga þessa máls er skoðuð þarf að hafa nokkur atriði í huga:

  1. Arion banki vann ekki þessi mál. Það var aldrei úrskurðað um réttmæti kröfu okkar um að tekið væri tillit til fyrningar vaxta við úthlutun söluverðs eignarinnar. Það hlýtur að vera hægt að álykta sem svo að ef dómararnir hefðu haft lagagrunn til að vísa frá kröfu okkar á þeim grundvelli, þá hefðu þeir gert það. Þess í stað var í dómsorði gripið til „raka“ sem standast enga skoðun, af ástæðum sem okkur eru ekki að fullu kunnar.

  2. Sýslumanni ber lagaleg skylda til að taka tillit til fyrningar vaxta við úthlutunargerð. Við höfum skjalfest að hann hafi gert það í öðrum málum. Fyrir utan augljós brot á réttindum okkar, þá er mismunandi meðferð sambærilegra mála klárt brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Sökin liggur fyrst og fremst hjá honum.

  3. Ákvörðun Arion banka að viðurkenna ekki fyrningu vaxta í okkar máli stendur á mjög veikum grunni. Ekki síst þegar við höfum það skjalfest á bréfsefni Arion banka að bankinn hafi viðurkennt fyrningu vaxta, að eigin frumkvæði, í öðrum málum. Hvernig getur þú, sem bankastjóri Arion banka, réttlætt slíka mismunun á meðferð viðskiptavina þinna? Hvernig getur þú réttlætt þá ákvörðun bankans að neyta yfirburða sinna til hins ítrasta og fylgja þessari vafasömu ákvörðun eftir af jafn mikilli hörku og raun ber vitni? Þetta eru brot sem í raun varða við stjórnarskrá.

Vegna þess gríðarlega aðstöðumunar sem er á milli okkar annars vegar og ykkar hjá Arion banka hins vegar, vorum við í raun upp á náð og miskun ykkar komin þegar hér er komið sögu.

Við fengum náðarsamlegast að kaupa heimili okkar aftur, en í samningaviðræðum var hins vegar litla sanngirni að finna. Auk þess að gefa ekkert eftir setti bankinn það sem skilyrðifyrir samningum að málið hjá endurupptökunefnd yrði dregið til baka.

Við skrifuðum undir enda ekki annað að gera í stöðunni eftir allt sem á undan var gengið.

Arion banki getur að sjálfsögðu ekki borið ábyrgð á gjörðum ríkisins. Þið hafið fullan rétt til að leita réttar ykkar fyrir dómstólum teljið þið á ykkur brotið. Spurningin er samt hvernig í ósköpunum við hjónin„brutum á ykkur“ nema að þið lítið svo á það að standa á lögvörðum réttindum sínum, sé brot sem refsa þurfi fyrir.

Tvær staðreyndir standa eftir:

  1. Arion banki neytti yfirburða sinna til að neyða okkur til að afsala okkur 12 milljónum á þeirri forsendu að „hann hefði unnið málið“ sem er augljóslega rangt. Engin vann, en aðeins annar aðilinn var í aðstöðu til að láta sem hann hefði gert það.

  2. Arion banki svipti okkur tækifæri til að leita réttar okkar.

Þegar allt þetta er lagt saman, teljum við eðlilegt, nú þegar betur árar hjá bankanum, að bankinn endurgreiði okkur þessar 12 milljónir sem voru ofteknar, í nafni heiðarleika og réttlætis.

Frekari upplýsingar verða fúslega veittar enda er hér stiklað á stóru og tölur „rúnnaðar“.

Með von um skjót viðbrögð svo ekki verði þörf að taka málið lengra.

Virðingarfyllst,

Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Hafþór Ólafsson


Fyrirvari: Allt í sambandi við okkar mál hjá Arion banka er vafasamt. Við drögum lögmæti allra krafna bankans í efa, auk þess sem uppboðið á eigninni var án nokkurs vafa ólöglega framkvæmt. Lögmæti eignarhalds Arion banka á eigninni XXX í Garðabæ þegar umræddur samningur var gerður, var því í besta falli vafasamt og allar líkur að við höfum þá keypt eign sem við áttum þá þegar, auk þess að hafa á undan leigt eigin eign í um 30 mánuði af Arion banka, fyrir um 8 milljónir króna.

Komi dómaforsendur í einhverjum þessara mála til með að breytast og/eða ef fordæmisgefandi dómar falla, áskiljum við okkur allan rétt til að sækja þann rétt með öllum ráðum.

Móttaka greiðslu fyrir t.d. fyrnda vexti sem eru sannanlega okkar og í raun þýfi hjá Arion banka, sviptir hvorki okkur né afkomendur okkar þess réttlætis sem síðar kemur.


Höfundur er kennari og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×