Skoðun

Tvær veirur á Al­þjóð­lega al­næmis­deginum 1. desember

Einar Þór Jónsson skrifar

HIV og COVID-19. Líkindin má finna í einangruninni. Smitótti er einnig til staðar nú eins og þá. Smitsjúkdómadeildin A7 er enn við lýði. Öll í þessum sóttvarnargöllum. Við sem smituðumst af HIV á níunda áratugnum þekkjum þá. Það er ekkert við heilbrigðisfólk að sakast. Það fylgir sóttvarnarreglum. Verður ópersónulegt í göllunum.

Ég smitaðist af HIV og ég fékk COVID. Ég var með háan hita þegar ég fór inn á göngudeildina nú í októbermánuði. Var með sýkingu í öðru lunga. Mér var boðið að vera yfir nótt. Ég gat ekki hugsað mér það. Það var ekki óttinn heldur fann ég ekki öryggi í því að vera lokaður inni á spítala. Þekkti gömlu tilfinninguna sem læddist að mér. Tilfinningin sem við HIV jákvæðu bárum í svo mörg ár. Hugsun um dauðann.

En samfélagið hefur breyst á þeim tíma sem liðin er frá því þegar um 40 ungir Íslendingar létust úr alnæmi. Upplýsingagjöfin er miklu meiri. Sjúklingum er sýndur skilningur. Á þá er hlustað. Þeir vita sínu viti. Fyrir þrjátíu árum voru sjúklingar sjúklingur. Þeir afhentu heilbrigðisyfirvöldum stjórnina á lífi sínu.

Tilfinningar. Í þessum HIV-faraldri og svo COVID-faraldri kemur óttinn aftan að fólki. Hann kemur að einstaklingum og ógnar fjölskyldu þeirra. Hann breytir lífinu. Annað hættir að skipta máli. Fyrir þrjátíu árum vorum við samkynhneigðu karlarnir hættan sem skapaði óttann. Við vorum lítill hópur með afmarkaðan sjúkdóm og settir út á kantinn. Þar sem HIV herjaði á lítinn hóp lagði veiran ekki hagkerfið á hliðina eins og nú.

Margt er líkt með HIV og COVID. Margt svo ólíkt. Við upplifðum sóttvarnaraðgerðir sem voru tilkomnar vegna fordóma. Ábyrgðin var sett á okkur hommana. Nú er ábyrgðinni dreift um samfélagið. Við tökum öll þátt og samþykkjum að þau sjúku séu í einangrun í tvær til fjórar vikur. Alein. Hitta engan. Allskonar fólk hittir engan nema þurfa hjálparhönd. Hún er veitt með hönskum og horft á í gegnum grímu.

Við sem smituðumst þegar HIV var dauðadómur vorum upp til hópa ung og hraust, með fullt af löngunum. Ungir karlar með ósamþykktar langanir í miklum meirihluta. Þannig er það ekki í dag. Þeir sem smitast af HIV geta með lyfjum lifað eðlilegu lífi. Við sem lifum með HIV tökum eina pillu daglega og smitum ekki frá okkur. En við erum mörg með ör á sálinni eftir stóra dóminn. COVID-ið minnir okkur á þau.

Smitsjúkdómalög eru krefjandi og ráðandi. Það fær enginn afslátt. Eftir að menn höfðu áttað sig á hvernig smitleiðir HIV væru og að eðlilegast að beina fræðslunni að mönnum sem sofa hjá mönnum fengum við hommarnir engan afslátt. Við vorum settir í einangrun, bókstaflega og félagslega, þótt við værum ekki smitandi í neinni umgengni.

Sóttvarnaryfirvöld voru sein í vöfum á alnæmistímanum. Það eru þau ekki í COVID. Smitótti, smitskömm. Tilfinningar sem vaxa innra með fólki. Nú með COVID var ég einn í einangrun í á fjórðu viku. Enginn mátti koma en ég vissi að líkaminn myndi vinna á veirunni. Þetta myndi ganga yfir. Það vissi ég ekki í gamla daga.

Þau sem voru veik og í einangrun með alnæmi bjuggust ekki við að læknast. Enginn gat komið. Vinir mínir vissu margir að þeir væru að deyja. Þar er allra helsti munurinn á veirunum tveimur. Meiri líkur en minni eru á að COVID líði hjá. Í biðinni eftir því að ónæmiskerfið næði sér aftur á strik varð minning um vini sem vissu að þeir myndu aldrei losna við veiruna heldur deyja ljóslifandi.

Ég hef fengið báðar veirurnar. Önnur minnir á hina. En eru samt ekkert líkar. Ég veit að kófið líður hjá. Við munum læra af þessu. Haustið hefur rifið í en ég veit að á endanum verður þessi vírus minningin ein. Minning eins og vinir sem fengu HIV, börðust og dóu. Þeir eru minning sem lifir.

Þann 1. desember höldum við upp á Alþjóðlega alnæmisdaginn. Einkunarorðinn í ár eru Samstaða á heimsvísu, sameiginleg ábyrgð. Það á við um HIV. Það á við um COVID.

Höfundur er framkvæmdastjóri HIV Ísland.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×