Viðskipti erlent

Bólu­setning verði skil­yrði þess að fljúga

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bólusetning við kórónuveirunni gæti orðið skilyrði þess að fá að fljúga með Qantas.
Bólusetning við kórónuveirunni gæti orðið skilyrði þess að fá að fljúga með Qantas. David Gray#JM/Getty

Ástralska flugfélagið Qantas mun gera það að skilyrði þess að fólk sé bólusett fyrir kórónuveirunni, vilji það fljúga með félaginu. Alan Joyce, forstjóri Qantas, segist gera ráð fyrir að önnur flugfélög séu í sömu hugleiðingum.

Breska ríkisútvarpið fjallar um málið og hefur eftir Joyce að ráðstöfunin yrði nauðsynleg eftir að bóluefni við kórónuveirunni verður aðgengilegt.

„Ég held að þetta verði algeng umræðuefni meðal kollega minna hjá öðrum flugfélögum víðs vegar um heiminn,“ sagði Joyce í samtali við áströlsku sjónvarpsstöðina Nine Network í dag. Hann sagði þá að flugfélagið leitaði nú leiða til þess að breyta skilmálum sínum með þetta skilyrði fyrir augum.

Alan Joyce, forstjóri Qantas, telur að önnur flugfélög kunni að gera bólusetningu að skilyrði fyrir flugi.David Gray/Getty

„Við munum biðja fólk um að vera bólusett áður en það fær að fara um borð í flugvélina […] fyrir alþjóðlega ferðamenn á leið inn og út úr landinu teljum við þetta nauðsynlegt.“

Þá sagði hann liggja ljóst fyrir að alltaf yrðu einhverjar undantekningar, og átti þá við fólk sem af læknisfræðilegum ástæðum gæti ekki látið bólusetja sig.

„En það ætti að vera eina undantekningin,“ sagði Joyce.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×