Skoðun

Nei, stórfé! Hér dugar ei minna!

Ólafur Ísleifsson skrifar

Kórónuveiran hefur slegið atvinnu- og efnahagslíf hér sem annars staðar bylmingshöggi. Nú þegar grillir í ljós við endann á göngunum þarf stefnu um endurreisn þjóðarbúsins til að uppræta atvinnuleysi og efla hagsæld landsmanna.

Til að efla atvinnulífið og eyða böli atvinnuleysis blasir við að ráðast í fjárfestingarátak til að bæta innviði í landinu. Átt er við vegakerfið, flugvelli, hafnir, brýr og fleiri slík vinnuaflsfrek verkefni. Hér eru uppi háar fjárhæðir til arðsamra verkefna. Fyrirsögn greinarinnar er sótt í hin alkunnu ummæli stórskáldsins og hins stórhuga athafnamanns Einars Benediktssonar í Aldamótaljóði sínu.

Aðkallandi verkefni

Fjölmörg verkefni hafa setið á hakanum um langt skeið þótt ýmislegt gott hafi verið gert. Ekki bætti hrunið úr skák og margvíslegar nýframkvæmdir og viðhald hafa mátt bíða. Ferðamannastraumurinn sýndi að vegakerfið stenst ekki kröfur um burðargetu og öryggi. Treysta þarf flugvelli, vegi, hafnir. Fráveitu- og sorpmál eru víða í ólestri og ógna umhverfi og lýðheilsu. Stór verkefni bíða í orkuvinnslu og orkuflutningum. Hitaveitur og vatnsveitur þarfnast víða endurbóta. Sama á við um fasteignir af ýmsu tagi, skóla og sjúkrahús, dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Greining Samtaka iðnaðarins

Samtök iðnaðarins (SI) sendu í október 2017 frá sér metnaðarfullt rit undir yfirskriftinni Íslenskir innviðir - Ástand og framtíðarhorfur. Er fjallað um innviði í flugvöllum, vegum, höfnum, fráveitum, hitaveitum, vatnsveitum, úrgangsmálum, orkuvinnslu og orkuflutningum ásamt fasteignum ríkis og sveitarfélaga, meðal annars skóla og sjúkrahús. Með fjárfestingum í innviðum telja samtökin að sé fjárfest í lífsgæðum þjóðarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagvexti framtíðar.

Mikilvægir innviðir

Í skýrslunni er svarað áhugaverðri spurningu: Hvert væri kaupverð eða kostnaðarverð sambærilegra innviða með sömu framleiðslu- og þjónustugetu? Svarið er um 3.500 milljarðar króna.

Skipting ofangreindrar fjárhæðar er í grófum dráttum: Orkuvinnsla (850–900 milljarðar króna), vegagerð (870–920), fasteignir ríkis og sveitarfélaga (440), orkuflutningar (320) og flugvellir (240–280). Lægsta fjárhæðin er í úrgangsmálum (35–40).

Hvað þarf til?

Ástand innviða er að almennt talin viðunandi en ekki góð. Búast megi við umtalsverðu viðhaldi til þess að halda uppi starfsemi þessara innviða. Best standa hitaveitur og orkuvinnsla og kalli ekki nema á eðlilegt viðhald. Verst er ástand vega og fráveitna. Aðrir innviðir liggja þarna á milli.

Þá er næst leitað svara við spurningunni hvað þurfi til að mannvirki komist í gott ástand og ekki þurfi nema eðlilegt viðhald til að halda stöðu þess óbreyttri. Þessi viðhaldsþörf er áætluð um 370 milljarðar króna eða um 11% af verðmætamatinu að ofan. Þar höfum við það. Nær fjögur hundruð milljarða þarf að dómi þeirra sem best þekkja í atvinnulífinu til að lyfta landinu í viðunandi ástand í þessum efnum.

Brettum upp ermar!

Viðhaldi innviða hefur að dómi SI verið verulega ábótavant í vegagerð, fasteignum ríkisins, fráveitum og orkuflutningum. Víða um land eru hættulegir vegarkaflar og á hringveginum eru enn hátt í 40 einbreiðar brýr. Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru kapítuli út af fyrir sig. Þar þarf að styrkja stofnbrautir, koma upp mislægum gatnamótum, beita ljósastýringu og leggja Sundabraut. Umtalsverð raforka nýtist ekki sökum þess að flutningskerfi raforku er ófullkomið. Þetta kallar á fjárfestingar í uppbyggingu meginflutningskerfis til að tryggja nægt framboð raforku um land allt. Skortur er á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Uppræta þarf myglu í fjölmörgum opinberum byggingum.

Hvaðan kemur fé til framkvæmda?

Í ljósi stöðu efnahagsmála gefst nú tækifæri til bæta innviði landsins, bæta lífskjör og eyða atvinnuleysi. Framkvæmdir af þessu tagi duga ekki aðeins í bráð heldur leggja grunn að hagvexti á komandi tímum. Umfang verkefnisins nemur um 15 % af landsframleiðslu 2017 að dómi SI.

Hið opinbera getur ekki eitt og sér staðið að framkvæmdum upp á hundruð milljarða á næstu árum. Innlendir jafnt sem erlendir fjárfestar eru áhugasamir um innviðauppbyggingu hér á landi og hér hefur byggst upp þekking á rekstri slíkra verkefna. Einkaaðilar verða að koma að uppbyggingu innviða.

Landinu lyft

Til að fjármagna framkvæmdir af þessu tagi má sjá fyrir sér að ríkið stofni félag sem nýtir þekkingu og hugvit. Slíkt félag gæti leitað til almennings og boðið lífeyrissjóðum áhugaverða fjárfestingarkosti sem féllu vel að eignasöfnum þeirra. Með þessu væri komið til móts við nauðsyn sjóðanna á að ávaxta ráðstöfunarfé til langs tíma til hagsbóta fyrir sjóðfélaga á efri árum. Verkefnin eru arðsöm og geta staðið undir vænlegri ávöxtun til þeirra sem leggja til fjármagn. Landinu yrði lyft í margvíslegu tilliti.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×