Viðskipti innlent

Fjölmiðlamaður fékk tveggja ára fangelsisdóm fyrir fjárdrátt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Axel Axelsson fékk tveggja ára fangelsisdóm. Ekki þótti ástæða til að skilorðsbinda dóminn vegna alvarleika brotanna.
Axel Axelsson fékk tveggja ára fangelsisdóm. Ekki þótti ástæða til að skilorðsbinda dóminn vegna alvarleika brotanna. vísir

Axel Axelsson, athafna- og fjölmiðlamaður á Akureyri sem meðal annars hefur rekið útvarpsstöðina Útvarp Akureyri, hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt. Bæði var hann sakfelldur fyrir að hafa dregið sér tugi milljóna sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi einkahlutafélaga og sömuleiðis fyrir fjárdrátt sem löggiltur fasteignasali.

Axel var ákærður af héraðssaksóknara og hlaut átján mánaða fangelsisdóm í fyrra. Dómnum var áfrýjað til Landsréttar sem þyngdi dóminn um sex mánuði.

Í dómi Landsréttar segir að Axel hafi dregið sér tæplega 37 milljónir króna af fjármunum félaganna Kaupsamningsstofan annars vegar og H014 hins vegar. Peningana lagði hann inn á persónulega bankareikninga sína.

Þá var Axel sömuleiðis sakfelldur fyrir að hafa í starfi sínu sem löggiltur fasteignasali hjá Kaupsamningsstofunni dregið sér rúmlega 36 milljónir króna sem hann veitti viðtöku frá kaupanda fasteignar. Peningarnir áttu að fara í greiðslu á veðskuld seljanda fasteignarinnar en Axel ráðstafaði henni í andstöðu við þá skyldu sína.

Loks var Axel sakfelldur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna reksturs Kaupsamningsstofunnar á tilgreindum rekstrarárum. Við ákvörðun refsingar var einkum litið til þess að Axel hafði framið hluta fjárdráttarbrotanna í starfi sem löggiltur fasteignasali.

Þá var horft til þess að fjárdrátturinn nam umtalsverðum fjárhæðum. Að því virtu og að teknu tilliti til 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing Axels ákveðin fangelsi í tvö ár. Jafnframt var A gert að greiða seljanda fyrrnefndar fasteigna skaðabætur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×