Skoðun

Um réttinn til að hafa rangar skoðanir

Snæbjörn Brynjarsson skrifar

Við eigum öll rétt á því að hafa eigin skoðanir. Það er jú, skoðanafrelsi og okkur frjálst að fylla huga okkar með þeim hugmyndum sem við viljum, trúa því sem okkur langar til, og jafnvel reyna að sannfæra aðra um vitleysuna sem við rekumst á í sannleiksleitinni.

En fullyrðingin, ég má hafa þessa skoðun, sé hún notuð sem rök fyrir tiltekinni skoðun, þá bendir það yfirleitt til þess að viðkomandi hafi fátt annað til að rökstyðja málið með. Mér má finnast þetta, er rétt fullyrðing en afleit rök.

Við höfum auðvitað öll rétt á því að hafa rangt fyrir okkur. Sá réttur er meira að segja heilagur og stjórnarskrárvarinn. Sem þýðir þó ekki að við ættum að nýta hann til þess að réttlæta ranghugmyndir, hunsa sönnunargögn, tölfræði og jafnvel almenna skynsemi.

Og við megum ekki reiðast ef við gólum röksemdir okkar, jafnvel í hljóðnema í útvarpsstúdíói tvisvar til þrisvar í viku, eða í vel lesnum pistlum á síðum Morgunblaðsins eða margdeildum (og umdeildum) facebook-færslum, þá fáum við á endanum meira til baka en bergmálið úr bergmálshellinum okkar.

Að við fáum lifandi fólk með aðra heimssýn og aðra skoðun inn á heimasvæði okkar með misvinsamlegar ábendingar, (og auðvitað misréttar því þau hafa sama rétt á að hafa rangt fyrir sér), sem sýna okkur að kannski var okkar fyrsta hugdetta ekki alveg hárrétt.

Það er ekki þöggun að fá svar. Ef svo væri þá væru flest öll samtöl þöggun. Og oftar en ekki þá var umdeilda fullyrðingin sett fram til að koma umræðunni af stað. Því oft á tíðum eru það þeir sem eru hvað viðkvæmastir fyrir umræðunni, sem verja skoðun sína með því að segja:

Mér fannst bara skorta umræðu um þetta.

Og svo þegar umræðan er komin á flug segja þeir.

Mér má alveg finnast þetta.

Sem vissulega er rétt, þó svo oftar en ekki hafi allar fyrri fullyrðingar viðkomandi verið kolrangar, byggt á eintómri óskhyggju og ótrúlegri leti við að kynna sér fyrirliggjandi gögn. Við höfum rétt á því að vera löt. En það þýðir þó ekki að við ættum að vera það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×