Körfubolti

„Skiptir mestu máli að við séum hérna enn þá á morgun“

Ísak Hallmundarson skrifar

Haukar ákváðu þegar í ljós kom að keppni í Íslandsmótinu í körfubolta væri frestað að senda alla erlenda leikmenn sína heim. Bragi Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, segir félagið bæði hafa horft á mannlega þáttinn og þann rekstrarlega og segir mestu máli skipta að liðið lifi þetta óvissuástand af.

„Ég held að þessi mannlegi vinkill sé alveg stór, sérstaklega þegar þú ert með þessa óvissu. Þú getur ekkert sagt við leikmanninn „við munum byrja að spila eða æfa á þessum tímapunkti“, þegar þú veist ekki þessa hluti er miklu hreinlegra að semja við þá um að vera heima hjá sér þar sem þeim líður betur og koma svo bara þegar við erum tilbúin,“ sagði Bragi.

Bragi vill skoða það að bíða örlítið lengur með að hefja keppni að nýju til að liðin geti undirbúið sig betur og telur það betri kost að geta miðað við ákveðna dagsetningu frekar en áframhaldandi óvissuástand.

„Ég lagði það til að við myndum kannski skoða það að hefja mótið aftur bara 3. janúar. Ekki sitja í þessari óvissu sem deild. Ég hefði talið það vera sniðugt að setja einhvern fastan punkt og reyna að stefna á hann. Þá geta liðin undirbúið sig betur og verið með „mini“ undirbúningstímabil og stefnt að einhverjum ákveðnum hlut, í stað þess að sitja í þessu limbó-ástandi sem við erum í rauninni í núna.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×