Skoðun

Ég og þið

Gunnar Dan Wiium skrifar

Mig langar í þessum örpistli að fjalla um samkennd og þjónustu.

Þessi tvö hugtök hafa verið mér hugleikin upp á síðkastið sökum vissra aðstæðna sem ég fann mig skyndilega í. Aðstæður sem fengu mig til að rýna í eðli samkenndar, skyldna minna gagnvart öðrum, þjónustu og því um líkt.

Ég speglaði mig í vitrari mönnum og öðlaðist upplýsingu. Ég áttaði mig á því að samkennd getur verið skilyrt sem og óskilyrt. Hún getur verið í garð þeirra sem ég deili skoðunum eða hugmyndum með. Hún getur verið gagnvart þeim eða því afli ég finn fyrir öryggi sem hluti af.

Skilyrt samkennd knýr mig til afstöðu með og fyrir vikið einnig gegn. Skilyrt samkennd er einkenni tvíhyggju þar sem raunveran birtist mér sem ég og hinir. Gott og slæmt. Og ef ég skil rétt í minni grunnhyggju þá samkvæmt sögunni, var Adam og Evu einmitt hent úr paradís fyrir einmitt að dragast inn í flokkadrætti og afstöðu. Þau misstu paradís sem er lýsandi fyrir það ástand sem fylgir óskilyrtri samkennd. Samkennd gagnvart öllu því sem er, óháð birtingarmynd.

Ég sé að í ástandi samkenndar sé ég sjálfan mig í öðrum, einfaldlega því í þessu ástandi sé ég sannleikan sem er að ég er aðrir. Ég sé að velferð mín er samtvinnuð velferð annarra og því ber mér að þjónusta í þágu sameiginlegrar velferðar. Ég sé að skylda mín er að þjónusta. Fyrst og fremst ber mér skylda að þjónusta börnin mín. Það eru þær skyldur sem standa mér næst. Að lyfta börnum mínum upp í námshöll þar sem þau svo vaxa inn í félagslegan sem og andlegan þroska. Ég sé að mér ber að draga athygli frá svartholi falsks sjálfs og beina henni í stað þar sem ég get orðið að gagni. Afleiðingin af því er sameiginlegur vöxtur, vöxtur sem afleiðing sjálfsfórnar.

Mér standa í raun bara tveir möguleikar til boða, tveir möguleikar sitthvorum megin við þann rakvélablaðs þunna stíg miðjunar sem óumflýjanlega þreytir mig til falls i aðra hvora áttina.

Þessir möguleikar fela í sér annaðhvort vöxt eða eyðileggingu. Ekkert þar á milli nema ótal útfærslur af hálfkáki og ótta.

Ég hér í lokin stend uppi sem óhræddur maður, ég er hæfur til að framfylgja skyldum mínum hvort sem er í leik eða starfi. Ég er óhræddur við draga mörk og segja sannleikan sem birtist mér að hverju sinni. Ég sýni nærgætni og aðgát en aldrei mun ég lúta höfði undan óréttlæti, kúgun og ofbeldi. Í því fellst meðal annars samkenndin í. Að draga mörk og elska það sem göfgar, draga mörk í kærleik en ekki ótta.

Ein ást.

Höfundur er smíðakennari



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×