Enski boltinn

Manchester United aftur á beinu brautina

Ísak Hallmundarson skrifar
Rashford og Bruno Fernandes gátu fagnað í kvöld.
Rashford og Bruno Fernandes gátu fagnað í kvöld. getty/Owen Humphreys

Manchester United er aftur á sigurbraut eftir 4-1 sigur á Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Þetta byrjaði ekki vel fyrir Man Utd þegar Luke Shaw skoraði sjálfsmark strax á 2. mínútu leiksins og kom Newcastle yfir.

Fyrirliðinn Harry Maguire sem legið hefur undir harðri gagnrýni undanfarið sýndi sitt rétta andlit og jafnaði metin fyrir Rauðu Djöflanna á 23. mínútu með góðum skalla eftir hornspyrnu.

Staðan í hálfleik var 1-1 en á 58. mínútu fengu Man Utd vítaspyrnu. Bruno Fernandes fór á punktinn en þá gerðist það í fyrsta skipti að hann klúðraði vítaspyrnu í rauðum búningi United.

Allt stefndi í jafntefli en sú varð heldur betur ekki raunin. Bruno Fernandes kom Man Utd yfir á 86. mínútu eftir góðan undirbúning frá Marcus Rashford. Rashford átti síðan aðra stoðsendingu sína í leiknum þegar hann lagði upp mark fyrir Aaron Wan-Bissaka, fyrsta mark hans fyrir Manchester United, á 90. mínútu.

Undir blálokin þegar uppbótartíminn var liðinn skoraði Rashford síðan sjálfur og gulltryggði góðan 4-1 sigur Rauðu Djöflanna, heldur betur góð lyftistöng fyrir þá eftir dapra byrjun á tímabilinu.

Eftir leikinn er Manchester United í 14. sæti með sex stig en liðið hefur spilað leik minna en flest önnur lið deildarinnar. Newcastle er í 11. sæti með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×