Handbolti

Viktor Gísli hafði betur í Ís­lendinga­slagnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli hefur átt betri leiki en það kom ekki að sök í kvöld.
Viktor Gísli hefur átt betri leiki en það kom ekki að sök í kvöld. vísir/andri marinó

Viktor Gísli Hallgrímsson var á sínum stað er GOG vann Ribe-Esjberg í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Rúnar Kárason, Gunnar Steinn Jónsson og Daníel Ingason leika með Ribe-Esjberg. Þá voru Arnar Birkir Hálfdánarson og Sveinbjörn Pétursson í eldlínunni er lið þeirra EHV Aue tapaði sínum fyrsta leik á leiktíðinni í þýsku B-deildinni.

Leikur GOG og Ribe-Esjberg var einkar jafn í fyrri hálfleik og voru það gestirnir sem voru marki yfir er flautað var til hálfleiks, staðan þá 14-13 Ribe-Esjberg í vil. Í þeim síðari hrökk allt í baklás hjá Rúnari, Gunnari Steini og félögum þeirra í Ribe-Esjberg.

Heimamenn tóku einfaldlega öll völd á vellinum og fór það svo að þeir unnu leikinn með átta marka mun, lokatölur 33-25 GOG í vil.

Það verður seint sagt að Viktor Gísli hafi átt stórleik í marki GOG. Søren Haagen Andreasen, hinn markvörður liðsins, var öflugri í dag. Viktor varði aðeins tvö skot í leiknum á meðan Søren varði sjö stykki.

Rúnar fór mikinn í liði Ribe-Esjberg og var markahæstur ásamt Jonas Larholm með fimm mörk hvor. Gunnar Steinn gerði tvö og Daníel eitt.

GOG er í 2. sæti á meðan Ribe-Esjberg situr í 10. sæti, alls eru 14 lið í deildinni. Síðarnefnda liðið hefur aðeins unnið einn leik og þarf að fara ná í fleiri stig ef það ætlar sér ekki að vera í fallbaráttu það sem eftir lifir tímabils. GOG hefur hins vegar ekki enn tapað leik og ætlar að gefa Álaborg hörku titilbaráttu.

Þá tapaði Íslendingalið EHV Aue á heimavelli fyrir HSV Hamburg í þýsku B-deildinni, lokatölur 35-32 Hamburg í vil. Arnar Birkir Hálfdánarson skoraði þrjú mörk í liði Aue og Sveinbjörn Pétursson varði sex skot í marki liðsins.

Var þetta fyrsta tap liðsins í deildinni en liðið hafði unnið fyrstu tvo leiki tímabilsins. Aue situr sem stendur í 5. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×