Körfubolti

LeBron sendi hælbítunum tóninn: „Ég vil mína helvítis virðingu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James fagnar með liðsfélögum sínum eftir að Los Angeles Lakers varð NBA-meistari í nótt.
LeBron James fagnar með liðsfélögum sínum eftir að Los Angeles Lakers varð NBA-meistari í nótt. getty/Douglas P. DeFelice

LeBron James kallaði eftir að fá þá virðingu sem hann ætti skilið eftir að Los Angeles Lakers varð NBA-meistari í nótt eftir sigur á Miami Heat, 106-93.

Þetta var fjórði meistaratitill LeBrons með þriðja liðinu. Hann er eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur verið valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins með þremur liðum.

LeBron kom til Lakers 2018 og á fyrsta tímabili hans hjá félaginu komst það ekki í úrslitakeppnina. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Lakers er nú NBA-meistari í sautjánda sinn.

„Þegar ég kom hingað sagði ég Jeanie [Buss] að ég ætlaði að koma félaginu aftur á þann stall sem það á að vera á. Að vera hluti af svona sögufrægu félagi er ótrúleg tilfinning, ekki bara fyrir mig heldur einnig fyrir liðsfélagana, þjálfarana og alla,“ sagði LeBron sem er ekki búinn að gleyma þeim sem efuðust um hann.

„Við viljum bara fá þá virðingu sem við eigum skilið. Rob [Pelinka] vill virðingu, þjálfarinn Frank Vogel vill virðingu, félagið vill virðingu og ég vil mína helvítis virðingu.“

LeBron var með 28 stig, fjórtán fráköst og tíu stoðsendingar í leiknum í nótt. Í úrslitaeinvíginu skoraði hann 29,8 stig, tók 11,8 fráköst og gaf 8,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBA

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.