Skoðun

Jafn réttur til fæðingar­or­lofs og brjósta­gjöf

Ásdís A. Arnalds og Sunna Símonardóttir skrifa

Brjóstagjöf hefur nýverið skotið upp kollinum í umræðu um frumvarp um breytingar á lögum um fæðingarorlof þar sem lýst hefur verið áhyggjum af áhrifum jafnræðis í orlofstöku á brjóstagjöf. En er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að brjóstagjöf líði fyrir jafna orlofstöku mæðra og feðra?

Brjóstagjöf á Íslandi

Brjóstagjöf er bæði algeng og álitin sjálfsögð á Íslandi og líkt og á hinum Norðurlöndunum þá hefja næstum allar íslenskar mæður brjóstagjöf. Hátt hlutfall brjóstagjafar bendir til þess að sú hugmynd að mæður vilji hafa börn sín á brjósti sé menningarlega mjög sterk hér á landi. Tölur frá árinu 2018 sýna að við fyrstu heimavitjun eru um 84% á brjósti, eingöngu, aðallega eða með þurrmjólkurábót og við sex vikna skoðun er hlutfallið komið upp í 88,4%. Í viðmiðum um næringu ungbarna er foreldrum bent á að börn á aldrinum fjögurra til sex mánaða geti fengið að smakka litla skammta af öðrum mat sem viðbót við brjóstamjólk eða þurrmjólk. Þegar barnið er orðið 6 mánaða þarf það aftur á móti meiri næringu en brjóstamjólk eða þurrmjólk til að fullnægja orku- og næringarþörf sinni og því er æskilegt að auka fjölbreytni í fæðuvali tiltölulega hratt eftir 6 mánaða aldur. Tölur um brjóstagjöf við 6 mánuða aldur sýna að foreldrar fylgja þessum tilmælum því þá eru aðeins 16% barna eingöngu á brjósti en 67% fá brjóstamjólk ásamt öðrum mat.

Fæðingarorlof og brjóstagjöf

Í nýju frumvarpi um fæðingarorlof er lagt til að réttur hvors foreldris verði 6 mánuðir en að foreldrar geti hvort um sig framselt einn mánuð til hins aðilans. Leiða má líkur að því að flestar mæður muni þá nýta 7 mánuði. Rannsóknir sem gerðar hafa verið við Háskóla Íslands undir forystu Guðnýjar Bjarkar Eydal og Ingólfs V. Gíslasonar sýna að fram til þessa hefur orlofslengd mæðra ekki komið í veg fyrir að þær væru lengi með börn sín á brjósti. Þvert á móti hefur lengd brjóstagjafar aukist jafnt og þétt á undangengum 20 árum. Könnun sem náði til foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árið 2003 sýndi að mæður voru að meðaltali 8,3 mánuði með barnið á brjósti en til samanburðar var meðallengd brjóstagjafar 9,6 mánuðir í könnun meðal foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árið 2014. Þessi aukning átti sér stað þrátt fyrir að mæður í síðarnefnda hópnum hefðu sama rétt til töku orlofs og mæður í þeim fyrrnefnda. Sömu rannsóknir sýna að engin tengsl eru á milli lengdar brjóstagjafar og þess hvenær mæður fara aftur til vinnu eftir barnsburð. Niðurstöður meðal þeirra sem áttu sitt fyrsta barn árið 2014 sýndu til að mynda að mæður sem hófu störf innan við 7 mánuðum eftir fæðingu voru að meðaltali 9,4 mánuði með barnið á brjósti en meðallengd brjóstagjafar var 9,6 mánuðir hjá þeim sem hófu vinnu eftir að barnið varð eins árs. Af þessu má ráða að atvinnuþátttaka mæðra kemur alls ekki í veg fyrir að þær séu með barn sitt á brjósti. Með öðrum orðum að atvinnuþátttaka ræður ekki lengd brjóstagjafar.

Hugmyndir okkar og vísindaleg þekking á brjóstagjöf er nátengd hugmyndum okkar um móðurhlutverkið, hvað felist í því að vera móðir og hvaða eiginleikum góðar mæður skuli búa yfir, og því getur það að ná ekki að hafa barn sitt á brjósti haft mikil áhrif á sjálfsmynd þeirra mæðra sem það upplifa. Rannsóknir Sunnu Símonardóttur benda til þess að hin mikla áhersla sem lögð er á farsæla brjóstagjöf geti valdið skömm, sektarkennd og upplifun um að hafa brugðist hjá mæðrum sem gefa börnum sínum þurrmjólk og á sérstaklega við um þær konur sem vildu hafa börn sín á brjósti, en gátu það ekki. Það þjónar ekki hagsmunum mæðra sem eru með börn sín á brjósti, eða mæðra sem geta ekki haft börn sín á brjósti að stilla umræðunni upp með þeim hætti að réttindi til fæðingarorlofs eigi að stjórnast af virkni mjólkurkirtla. Þær íslensku rannsóknir sem vísað er í hér á undan benda einnig eindregið til þess að áhyggjur af því að brjóstagjöf muni líða fyrir jafna orlofstöku mæðra og feðra séu einfaldlega ekki á rökum reistar.

Ásdís A. Arnalds, doktorsnemi við Félagsráðgjafardeild HÍ og verkefnisstjóri á Félagsvísindastofnun HÍ

Sunna Símonardóttir, aðjúnkt og nýdoktor í félagsfræði við Háskóla Íslands



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×