Handbolti

„Held að Framarar geti sjálfum sér um kennt“

Sindri Sverrisson skrifar
Theodór Ingi Pálmason og Rúnar Sigtryggsson rýndu í síðustu leiki Olís-deildarinnar í Seinni bylgjunni.
Theodór Ingi Pálmason og Rúnar Sigtryggsson rýndu í síðustu leiki Olís-deildarinnar í Seinni bylgjunni. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Rúnar Sigtryggsson segir Rógva Dal Christiansen, færeyska línumanninn í liði Fram, ekki fá ósanngjarna meðferð hjá dómurum Olís-deildarinnar í handbolta. Framarar geti sjálfum sér um kennt að ekki hafi komið meira út úr Rógva til þessa.

Rógvi átti í miklum átökum við FH-inga í 28-22 tapi Framara í síðustu umferð. Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, sagði eftir jafntefli við Aftureldingu á dögunum að hann teldi Rógva ekki njóta sannmælis, hvorki hjá dómurum né öðrum. Hann minntist á meðferðina á línumanni sínum aftur eftir leikinn við FH.

Rúnar sagði í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport að Rógvi hefði vissulega átt að fá tvö víti í leiknum við FH, sem hann fékk ekki, en sagði Framara einfaldlega þurfa að gera betur:

„Hann er ekki að fá neina sérmeðferð eða neitt. Að vísu voru tvö atvik í fyrri hálfleik þar sem hann átti klárlega að fá vítakast, og óskiljanlegt að þau hafi ekki verið dæmd. En almennt eru átökin svona á línunni. Þetta er svona hjá öllum línumönnum.

Þetta er kannski meira honum sjálfum að kenna. Mér finnst hann oft ekki vita hvar hann á að standa þegar kerfin eru keyrð, eða standa vitlaust. Ég skil að menn séu svekktir yfir víti sem er ekki dæmt, en almennt þá held ég að Framarar geti sjálfum sér um kennt að hann sé ekki að nýtast. Hann er mjög mikið að hlaupa – hlaupa bara eitthvert. Og mér finnst hann ekki taka sér rétta stöðu svo að hann snýr oft baki í boltann þegar útileikmaður er með hann,“ sagði Rúnar.

„Ég er viss um að þegar útilínan fer að spila betur saman þá virkar hann betur. Hann er bara nýr. En ég hef ótrúlega gaman að honum. Svona eiga línumenn að vera. Láta finna fyrir sér, og ég sá að Ágúst Birgisson hafði mjög gaman af að slást við hann,“ bætti hann við.

Klippa: Seinni Bylgjan - Færeyski línumaðurinn í Fram

Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.