Körfubolti

Allt klárt fyrir úrslitaeinvígi NBA

Sindri Sverrisson skrifar
Miami Heat varð austurdeildarmeistari í nótt en ætlar sér að landa NBA-meistaratitlinum með sigri á LA Lakers.
Miami Heat varð austurdeildarmeistari í nótt en ætlar sér að landa NBA-meistaratitlinum með sigri á LA Lakers. vísir/getty

Los Angeles Lakers og Miami Heat hefja einvígi sitt um NBA-meistaratitilinn á miðvikudagskvöld eftir að Miami sló Boston Celtics út í nótt.

Miami vann einvígið við Boston 4-2 en liðið vann sjötta leik liðanna 125-113 í nótt. Boston var fjórum stigum yfir snemma í fjórða leikhluta en Miami náði svo yfirhöndinni þegar rúmar sex mínútur voru eftir með þriggja stiga körfu Bam Adebayo sem átti magnaðan leik.

„Getum við klárað þetta sem fyrst svo ég geti notið þess að fá mér bjór,“ sagði Erik Spoelstra, þjálfari Miami, laufléttur á blaðamannafundi eftir sigurinn, en hann var hæstánægður með sína menn. „Þessi leikmannahópur elskar það meira en allt að leika til sigurs.“

Miami er eina liðið í NBA sem komist hefur í úrslit sex sinnum á síðustu 15 árum. Liðið freistar þess nú að landa fjórða titlinum.

Ár er síðan að Jimmy Butler mætti til félagsins og sagðist ætla að vera hluti af næstu tilraun þess til að landa titlinum. Butler skoraði 22 stig í nótt en Adebayo náði sínum stigahæsta leik á tímabilinu með 32 stig og 14 fráköst. Þetta er í sjötta sinn sem að Miami vinnur austurdeildina.

Hér má sjá dagskrá úrslitanna sem eins og fyrr segir hefjast á miðvikudagskvöld, eða aðfaranótt fimmtudags kl. 1 að íslenskum tíma.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×