Gagnrýni

Ratched - Óskapnaður sem enginn bað um

Heiðar Sumarliðason skrifar
Þættirnir Ratched eru nú komnir á Netflix.
Þættirnir Ratched eru nú komnir á Netflix.

Hjúkrunarfræðingurinn Mildred Ratched mætir á geðveikrahæli til að reyna að bjarga morðingjanum bróður sínum frá því að vera dæmdur sakhæfur. Þar mæta henni ýmsir skrautlegir karakterar og áður en yfir lýkur veit áhorfandinn varla hvað hann var að horfa á. 

Netflix-þættirnir Ratched eru forsaga fyrrnefnds hjúkrunarfræðings úr skáldsögunni og kvikmyndinni One Flew Over the Cuckoo´s Nest, eða Gaukshreiðrinu eins og hún kallaðist á íslensku. Gaukshreiðrið fjallaði á heldur raunsæjan máta um fangann R.P. McMurphy sem lætur svo illa í fangelsi að hann er sendur á geðveikrahæli til að vera metinn af sérfræðingum. McMurphy er alls ekki geðveikur, en tekur því fegins hendi að leika lausum hala meðal sjúklinganna og æsa þá upp. Yfirhjúkrunarfræðingurinn Mildred Ratched er ekki sérlega ánægð með framkomu hans og gerir það sem þarf til að tryggja vinnufrið á stofnuninni.

Make-over frá Ryan Murphy

Nú hefur ofurframleiðandinn Ryan Murphy gert átta þátta seríu sem á að vera forsaga þessa hjúkrunarfræðings. Ef persóna Ratched úr Gaukshreiðrinu er skoðuð birtist þar kona sem er ráðin til að framfylgja ákveðnu verkefni, að bæta menn sem eru veikir á sál, sem og halda uppi röð og reglu á deildinni. Hún er tákngervingur kerfisins, hún er tölvan segir nei (fyrir þá sem kannast við þann skets úr Little Britain), og hún er svipbrigðalausi dómsmálaráðherrann sem tekur á móti áskorunum um að egypsk fjölskylda fái að búa á Íslandi. 

Því væri eðlilegast að gera um hana forsögu sem sýnir ferðalag manneskju sem ætlar að breyta hlutunum á geðdeild, en er barin til hlýðni af kerfinu og verður á endanum fulltrúi þess sem hún ætlaði að breyta. 

Engin skyldleiki við frumefnið

Það væri líka eðlilegast ef þættirnir væru á raunsæjum nótum, líkt og efnið sem unnið er upp úr. Ryan Murphy og félagar eru hins vegar með aðrar hugmyndir, því sú persóna Ratched sem birtist í þessari þáttaröð deilir engum einkennum með persónunni úr Gaukshreiðrinu. Það sem meira er, þá er tónn þáttanna ekki í neinu flúkti við tón Gaukshreiðursins. Horfið er frá hinu raunsæja og skipt yfir í yfirdrifinn hrollvekjuabsúrdisma, sem hefur ekkert með frumefnið að gera. 

Satt best að segja skil ég ekki þankaganginn hjá höfundum þáttanna, til hvers að taka eitthvað efni sem nú þegar er til og taka snúning á það sem tengist engan veginn því sem á undan er komið? Þættirnir Ratched eru komnir svo langt frá Gaukshreiðrinu að það hefði ekki nokkur maður áttað sig á tengingunni ef nafni aðalpersónunnar hefði verið breytt.

Ekki fyrir aðdáendur Gaukshreiðursins

Reyndar byrjar þáttröðin sæmilega og eftir fyrsta þátt var ég nokkuð spenntur, en þegar á líður verður framvindan súrari og sundurlausari. Ég þurfti að hafa töluvert fyrir því að klára alla þættina átta og ég tel ólíklegt að ég muni setjast niður og horfa á þáttaröð númer tvö þegar hún kemur. 

Ég hef alveg séð leiðinlegri þætti en Ratched, og á köflum eru þeir ágæt skemmtun. Ég kemst hins vegar ekki hjá því að velta fyrir mér tilganginum með þessu öllu saman. Aðdáendur myndarinnar fá ekki neitt fyrir sinn snúð, og munu líklegast einungis verða pirraðir. 

Fyrir þá sem ekki hafa séð kvikmyndina og ætla að horfa á þættina um Ratched, þá mæli ég sterklega með því að horfa alls ekki á myndina. Þeir sem eru hrifnir af þáttunum, ættu einnig að láta myndina eiga sig, enda á hún ekkert skylt við þáttaröðina um Ratched.

Niðurstaða:

Tvær stjörnur.

Stjörnurnar tvær fær Ratched fyrir ágætt skemmtunargildi á köflum. Þetta er hins vegar forsaga sem enginn bað um, sett fram á máta sem ekki er heil brú í. Make-over Murphys skilar okkur því einhvers konar óskapnaði.

Hér að neðan er hægt að heyra Heiðar Sumarliðason ræða Ratched við handritshöfundinn Hrafnkel Stefánsson í hlaðvarpsþættinum Stjörnubíói.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×