Körfubolti

Denver-ævintýrið hélt áfram og ekkert verður því af einvígi LA-liðanna í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Malone, þjálfari Denver Nuggets, fylgist með stjörnuleikmönnum sínum Nikola Jokic (15) og Jamal Murray (27) fagna sigri í nótt.
Michael Malone, þjálfari Denver Nuggets, fylgist með stjörnuleikmönnum sínum Nikola Jokic (15) og Jamal Murray (27) fagna sigri í nótt. AP/Mark J. Terrill

Denver Nuggets vann þriðja leikinn í röð á móti Los Angeles Clippers í úrslitaleik NBA-deildarinnar í nótt og tryggði sér sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar á móti Los Angeles Lakers. Miami Heat vann Boston Celtics í framlengingu í fyrsta leiknum í úrslitum Austurdeildarinnar.

Denver dúóið Jamal Murray og Nikola Jokic áttu báðir súperleik í sannfærandi 104-89 sigri Denver Nuggets á Los Angeles Clippers í hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Jamal Murray skoraði 40 stig og Nikola Jokic bauð upp á þrennu með 16 stigum, 13 stoðsendingum og 22 fráköstum.

Denver Nuggets lenti 3-1 undir í einvíginu alveg eins og í seríunni á undan á móti Utah Jazz. Liðið er það fyrsta í sögu NBA sem vinnur tvö einvígi í sömu úrslitakeppninni eftir að lent 3-1 undir.

Flestir voru farnir að telja niður í Los Angeles einvígi á milli Lakers og Clippers en ekkert verður að því. Ofurlið Los Angeles Clippers var sett saman fyrir þetta tímabil en strandaði á fyrstu hindrun. Los Angeles Clippers hefur aldrei komist í úrslit Vesturdeildarinnar og það breyttist ekki einu sinni þegar margir héldu að þeir væru með lið til að fara alla leið.

Stórstjörnur Clippers-liðsins, Kawhi Leonard og Paul George voru langt frá sínu besta. Leonard hitti aðeins úr 6 af 22 skotum og skoraði bara 14 stig. George var með 10 stig og hitti aðeins úr 4 af 16 skotum.

Leonard og George kolféllu á prófinu í seinni hálfleiknum þegar þeir skoruðu aðeins samtals fimm stig og klikkuðu á 16 af 18 skotum sínum utan af velli. Það má búast við því að þeir fái báðir að heyra það frá bandarískum spjallþáttarstjórnendum í dag.

Nuggets liðið var reyndar tólf stigum undir í fyrri hálfleiknum og 54-61 undir þegar 10:50 voru eftir að þriðja leikhluta. Þá náði Denver 35-13 spretti og leit ekki til baka eftir það.

Miami Heat er komið í 1-0 á móti Boston Celtics í úrslitum Austurdeildarinnar eftir 117-114 sigur í framlengdum fyrsta leik. Miami liðið hefur unnið 9 af 10 leikjum sínum í úrslitakeppninni til þessa.

Ein af stærstu stundum leiksins var í blálokin þegar Jayson Tatum ætlaði sér að troða boltanum í körfuna og jafna metin en Bam Adebayo varði frá honum skotið og tryggði sínu liði sigurinn.

Boston Celtics komst þrettán stigum yfir í upphafi leiks og var fjórtán stigum yfir, 85-71, snemma í lokaleikhlutanum. Miami tókst að koma leiknum í framlengingu og hafa þar betur.

Goran Dragic skoraði 29 stig fyrir Miami liðið, Jae Crowder var með 22 stig og Jimmy Butler skoraði 29 stig. Tyler Herro var nálægt þrennunni af bekknum en hann skoraði 12 stig, tók 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.

Jayson Tatum var með 30 stig, 14 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 stolna bolta en Marcus Smart skoraði næst mest með 26 stig. Kemba Walker var síðan með 19 stig.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.