Viðskipti innlent

383 milljarða neysla ferðamanna hér á landi á síðasta ári

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ísland hefur á undanförnum árum verið gríðarlega vinsæll ferðamannastaður.
Ísland hefur á undanförnum árum verið gríðarlega vinsæll ferðamannastaður. Vísir/Vilhelm

Heildarneysla erlendra ferðamanna hér á landi nam 383,4 milljörðum króna á síðasta ári. Svisslendingar voru gjarnastir á það að rífa upp veskið hér á landi á meðan Kínverjar voru eyðslugrannastir sé miðað við hverja gistinótt.

Þetta kemur fram í nýrri hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem teknar eru saman tölur yfir eyðslu erlendra ferðamanna hér á landi á síðasta ári.

Þar kemur meðal annars fram að af þessum 383 milljörðum voru útgjöld ferðamannanna til íslenskrar ferðaþjónustu 322,1 milljarður, eða um 84 prósent af heildarútgjöldum þeirra hér á landi.

Önnur neysla þeirra var ýmis verslun ótengd ferðaþjónustu, 56,2 milljarðar og önnur þjónusta sem nam um fimm milljörðum króna. Í þessum tölum er stuðst við heildarneyslu ferðamanna en ekki einungis kortaveltu sem mælir aðeins hluta af heildarneyslu erlendra ferðamanna hér á landi, að því er segir á vef Landsbankans.

„Sé litið á neysluútgjöld eftir þjóðerni sést að Svisslendingar eyddu langmestu á hvern ferðamann. Neysla þeirra í fyrra var 339,6 þúsund krónur á hvern ferðamann,“ segir í Hagsjánni.

Þar á eftir komu Bandaríkjamenn með 210 þúsund krónur á hvern ferðamenn og þar á eftir Bretar með 191,7 þúsund. Pólverjar reka lestina með 26,6 þúsund en sú tala er skýrð með því að hluti þeirra Pólverja sem hingað koma hafa hér fasta búsetu.

Neysla Kínverja á hvern ferðamenn er svo næstlægst á eftir Pólverjum en hún nemur 98,2 þúsundum. Þar á eftir koma Japanir með 123 þúsund.

„Lítil neysla Kínverja skýrist ekki af því að þeir dvelji hér í mjög skamman tíma heldur fyrst og fremst af því að útgjöld þeirra hér á landi á hverja gistinótt nema einungis 21,5 þúsund krónum sem er langlægsta gildið meðal stærstu viðskiptavina íslenskrar ferðaþjónustu. Til samanburðar er meðaltalið 43 þúsund krónur og nær neysla Kínverja því ekki að vera helmingurinn af meðalneyslunni,“ segir í Hagsjánni sem lesa má í heild sinni hér.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.