Skoðun

Við viljum bjóða þrjá­tíu­þúsundasta íbúa Hafnar­fjarðar vel­kominn…………..aftur

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Undanfarin ár hafa verið mikill vaxtartími á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúum á SV horninu hefur fjölgað mikið.

Íbúum Hafnarfjarðar hefur hreinlega fækkað um 0,7% á árinu 2020. Þann 31. október 2019 bauð bæjarstjóri þrjátíuþúsundasta íbúann velkominn með viðhöfn en síðan þá hefur bæjarbúum aftur fækkað og eins og staðan er núna munum við þurfa að fagna þeim áfanga aftur. Þetta er áhyggjuefni af nokkrum ástæðum.

Á einum mesta uppgangstíma Íslandssögunnar er árangur okkar í skipulags- og byggingarmálum sá að bæjarbúum fækkar. Fulltrúar Viðreisnar hafa áður bent á þessa þróun en verið svarað með skætingi af meirihlutanum.

Bæjarsjóður þarf að taka á sig töluvert högg vegna Covid faraldursins. Tekjur skreppa saman og útgjöld aukast. Undirritaður hefur lengi bent á að vandi bæjarsjóðs er fyrst og fremst tekjuvandi. Fjármálastjóri bæjarins og sviðsstjórar hafa staðið sig gríðarlega vel þegar kemur að útsjónarsemi á útgjaldahlið og ber að hrósa þeim fyrir frábært starf.

Tekjur sveitarfélaga koma að mestu leiti frá útsvari íbúa og fasteignagjöldum. Hefðum við ekki flotið sofandi að feigðarósi í skipulags og byggingarmálum má ætla að í bænum væru þrjú þúsund nýir Hafnarfirðingar sem skiluðu um tveimur og hálfum milljarði í auknar tekjur árlega. Það er ekki fjarri þeirri upphæð sem meirihlutinn mun sætta sig við sem einskiptis söluhagnað af bréfum bæjarfélagsins í HS Veitum.

Þessi tíðindi setja óvönduð vinnubrögð meirihlutans í nýtt samhengi. Þegar honum var bent á það hversu mikla holu hann hafði grafið sig í var hlaupið af stað og leitað að einhverri skyndilausn til þess að grafa sig úr vandanum. Lausnin var sú að falla frá vandaðri undirbúningsvinnu við rammaskipulagið á Hraun Vestur og bjóða einum lóðarhafa brunaafslátt af öllum gæðakröfum í þeirri von að sú uppbygging myndi fela að einhverju leiti úrræðaleysi undanfarinna ára.

Það er styttra í að bæjarstjóri kveðji þrjúhundraðasta Hafnfirðinginn sem flytur úr bænum árið 2020 en að bjóða þrjátíuþúsundasta íbúann velkominn upp á nýtt.

Hvort viðkomandi fái blómvönd og krúttkörfu er ekki vitað.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.