Skoðun

Heil­brigðis­þjónusta í heims­far­aldri

Unnur Pétursdóttir skrifar

Þann 8. september ár hvert fagna sjúkraþjálfarar um allan heim Alþjóðlegum degi sjúkraþjálfunar og vekja athygli á mikilvægi sjúkraþjálfunar í heilbrigðisþjónustunni. Í ár er fagnað í skugga heimsfaraldurs, sem hefur sett mark sitt á heilbrigðiskerfi allra landa, en einnig orðið til þess að fjölmargir átta sig á þeirri þekkingu sem sjúkraþjálfarar búa yfir þegar kemur að meðferð á meðan alvarlegum veikindum stendur og endurhæfingu eftir slík veikindi. Sjúkraþjálfarar eru ekki einungis hluti af því teymi sem bjargar mannslífum. Sjúkraþjálfarar eru einnig hluti af því teymi sem færir fólki lífsgæði þess til baka og leitast við að tryggja fólki heilbrigt og sjálfstætt líf eftir föngum. Í því samhengi er bent á leiðbeiningar sem hægt er að nálgast á heimasíðu Félags sjúkraþjálfara, www.physio.is.

Við þær aðstæður sem upp koma í heilbrigðisþjónustu í heimsfaraldri er að mörgu að huga. Fyrst og fremst þarf að leitast við að varna því að fólk veikist og sinna þeim sem veikjast. En svo er öll önnur starfsemi heilbrigðiskerfisins sem þarf að huga að og halda gangandi.

Í þeirri lokun sem varð sl. vor kom berlega í ljós hversu regluleg meðferð sjúkraþjálfara er mörgum mikilvæg. Fjölmargir skjólstæðingar sjúkraþjálfara, s.s. aldraðir og fatlaðir urðu fyrir færni- og lífgæðaskerðingu á meðan á lokun stóð og margir hverjir njóta enn skertrar þjónustu. Því er afar brýnt að allir taki höndum saman um sóttvarnir í samvinnu við almannavarnir, þannig að ekki þurfi að koma aftur til lokana af því tagi sem urðu í vor og að leitað verði allra leiða til að öll venjubundin þjónusta heilbrigðiskerfis virki sem skildi.

Ljósi punkturinn er að heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar opnuðu á möguleika til fjarsjúkraþjálfunar, sem rætt hefur verið um lengi. Sjúkraþjálfarar brugðust skjótt við og nýttu sér þennan nýja möguleika eins og hægt var, og er það vel. Þessa þjónustu þarf að þróa og efla til framtíðar, enda mikið framfaraspor ef vel tekst til.

Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×