Handbolti

Dregið í riðla á HM í handbolta fyrir framan pýramídana á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson mun væntanlega taka við fyrirliðabandinu af Guðjóni Val Sigurðssyni sem lagði skóna á hilluna í vor.
Aron Pálmarsson mun væntanlega taka við fyrirliðabandinu af Guðjóni Val Sigurðssyni sem lagði skóna á hilluna í vor. Getty/TF-Images

Íslenska karlalandsliðið í handbolta verður í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla á morgun fyrir heimeistarakeppnina í handbolta sem á að fara fram í byrjun næsta árs.

Eins og staðan er núna þá fer HM í handbolta fram í Egyptalandi í janúar en auðvitað gæti kórónuveiran breytt því eins og flestu öðru í heiminum nú um stundir.

Alþjóða handknattleikssambandið og mótshaldarar ætla alla vega að draga í riðla á morgun fyrir framan pýramídana í Gísa. Drátturinn verður klukkan sjö að staðartíma eða klukkan fimm að íslenskum tíma.

Þetta verður söguleg heimsmeistarakeppni því í fyrsta sinn munu 32 þjóðir taka þátt. Í raun hafa aðeins þrjátíu þjóðir tryggt sér sætið en enn á eftir að finna út hvaða þjóðir koma frá Norður og Mið-Ameríku annars vegar og frá Suður-Ameríku hins vegar.

Þessum 32 þjóðum verður skipt niður í átta fjögurra þjóða riðla og þrjú efstu þjóðirnar í hverjum riðli komast síðan áfram í fjóra milliriðla. Þaðan tryggja síðan tvær efstu þjóðirnar sér sæti í átta liða úrslitum og eftir það verður útsláttarkeppni.

Íslenska landsliðið er í þriðja styrkleikaflokki að þessu sinni og verður því ekki í riðli með Brasilíu, Úrúgvæ, Tékklandi, Frakklandi, Suður-Kóreu, Japan eða Barein.

Það verða aftur á móti tvær öflugar þjóðir úr fyrsta og öðrum styrkleikaflokki í riðli Íslands. Það er þó talsverður gæðamunur á þjóðunum í öðrum styrkleikaflokki og þar gæti Ísland hafi heppnina með sér.

Sömu sögu er að segja af fjórða styrkleikaflokknum þar sem væri mjög gott að losna við það að mæta Póllandi og Rússlandi sem dæmi.

Íslenska liðið gæti lenti í riðli með þýska landsliðinu en þetta verður fyrsta stórmót þess undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Alfreð gæti líka lenti í riðli með Japan en Dagur Sigurðsson þjálfar japanska landsliðið.

Í fyrsta styrkleikaflokki verður ein af eftirtöldum þjóðum með Íslandi í riðli: Danmörk, Spánn, Króatía, Noregur, Slóvenía, Þýskaland, Portúgal og Svíþjóð.

Í öðrum styrkleikaflokki verður ein af eftirtöldum þjóðum með Íslandi í riðli: Egyptaland, Argentína, Austurríki, Ungverjaland, Túnis, Alsír, Katar og Hvíta Rússland.

Úr fjórða og síðasta styrkleikaflokki verður ein af eftirtöldum þjóðum með Íslandi í riðli: Angóla, Grænhöfðaeyjar, Marokkó, Suður-Ameríku þjóð, Kóngó, Pólland, Norður og Mið-Ameríkuþjóð og Rússland.

Það verður dregið úr fjórða, þriðja og fyrsta styrkleikaflokki en síðan fá gestgjafar Egypta að velja sér riðil áður en haldið verður áfram að draga liðin úr öðrum styrkleikaflokki í riðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×