Handbolti

Orðinn Þórsari eftir sáttafund með KA

Sindri Sverrisson skrifar
Jovan Kukobat hefur leikið með KA síðustu ár en var leikmaður sameinaðs liðs KA og Þórs, Akureyrar, á árunum 2012-2014.
Jovan Kukobat hefur leikið með KA síðustu ár en var leikmaður sameinaðs liðs KA og Þórs, Akureyrar, á árunum 2012-2014. VÍSIR/BÁRA

Handboltamarkvörðurinn Jovan Kukobat er kominn með félagaskipti á milli erkifjendanna í KA og Þór eftir nokkra bið vegna deilu hans við KA um launamál.

Þórsarar sendu inn beiðni til HSÍ um félagaskipti um miðjan ágúst en KA-menn vildu ekki kvitta undir þau fyrr en allt væri frágengið varðandi hans mál hjá félaginu. Eftir sáttafund með Jovan í fyrradag staðfesti KA hins vegar félagaskiptin og markvörðurinn er því klár í slaginn með Þór í Olís-deildinni sem hefst 10. september.

„Við fengum það beint í eyrað frá okkar manni að þeir ætluðu ekkert að skrifa undir fyrr en að hann væri búinn að skrifa undir plagg um að hann afneitaði sér launum sem þeir skulduðu honum. Það er náttúrulega ólöglegt,“ sagði Magnús Eggertsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs við Vísi í gær, um sama leyti og KA sendi HSÍ undirritaða félagaskiptapappíra. Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti að þeir hefðu borist.

Samkvæmt upplýsingum Vísis snerist deilan að einhverju leyti um túlkun á samningi hvað varðar það hvort að endurgreiðslur frá skatti flokkuðust sem hluti af launum Jovans eða ekki.

Siguróli Magnússon, íþróttafulltrúi KA, sagði málið leyst og vildi ekki tjá sig um það frekar.

Jovan er 33 ára gamall Serbi sem fyrst kom til Íslands árið 2012 og varði mark sameinaðs liðs KA og Þórs, Akureyrar, á árunum 2012-2014. Hann sneri aftur til Íslands árið 2017 og hefur leikið með KA síðustu þrjár leiktíðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×