Viðskipti innlent

Er­lend korta­velta tæpur þriðjungur miðað við í fyrra

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar segir veltuna lækka nú dag frá degi eftir að takmarkanir við landamæri voru hertar.
Forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar segir veltuna lækka nú dag frá degi eftir að takmarkanir við landamæri voru hertar. Vísir/vilhelm

Erlend kortavelta í júlí er tæpur þriðjungur af því sem var í fyrra. Þó er júlí skásti mánuðirinn frá því í mars.

Forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar segir veltuna lækka nú dag frá degi eftir að takmarkanir við landamæri voru hertar.

Erlend kortavelta nam rúmum tíu milljörðum í júlí. Fyrir utan mars til júní á þessu ári hefur ekki verið lægri velta í einum mánuði frá janúar 2016. Minnstur samdráttur var í verslun en þó var veltan ríflega helmingi minni en fyrir ári. Í gistiþjónustu var erlenda kortaveltan aðeins fjórðungur miðað við síðasta ár, þriðjungur í veitingaþjónustu og hjá bílaleigum dróst veltan saman um tæplega sjötíu prósent.

Greiningin er gerð af Rannsóknarsetri verslunarinnar. Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður þar, segir enginn flokk ferðaþjónustunnar koma vel út í sumar.

„Ferðaþjónustan hefur verið við alkul frá því í mars - og júlí var þó töluvert skárri fyrir ferðaþjónustuna en hefur verið framan af ári. En það er ekkert á við það sem hefði verið ef faraldurinn hefði ekki skollið á.“

Rannsóknasetur verslunarinnar

Dönsk greiðslukort veltu mestu í júlí, þar á eftir þýsk og svo bresk. Íslensk greiðslukort hafa aldrei velt eins miklu í einum mánuði.

„Innlenda veltan hefur sýnt mikla neyslu. Íslendingar eru væntanlega að eyða þeim peningum sem annars hefðu farið í ferðalög í innlenda verslun og þjónustu – aldrei verið hærri en núna í júlí.“

Jafnast þetta á við jólaverslunina?

„Já, þetta er stærri tala en í desember síðastliðinn í heildina en í verslun er talan sambærileg, eða í kringum 45 milljarða, en það er ekkert sem við sjáum oft í júlí - júlí er yfirleitt ekki sprækur – þannig að hann jafnist á við desember en það var hann núna.“

En neysla Íslendinga bætir ekki upp tjónið fyrir ferðaþjónustuna,

Árni Sverrir segir þetta aðeins dropa í hafið og að auki virðist erlenda neyslan á hraðri niðurleið.

„Við sjáum það að það lækkar í kortunum dag frá degi, það sem kemur inn, frá því að samkomutakmarkanir voru hertar,“ segir Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×