Handbolti

Valsmaður búinn að semja við ÍBV fyrir næsta tímabil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Snær Vignisson og Davíð Þór Óskarsson handsala samninginn.
Ásgeir Snær Vignisson og Davíð Þór Óskarsson handsala samninginn. Mynd/Fésbókarsíða handboltans í Eyjum
Valsmaðurinn Ásgeir Snær Vignisson hefur gengið frá tveggja ára samning við ÍBV og mun ganga til liðs við bikarmeistarana eftir þetta tímabil.

Eyjamenn segja frá þessu á fésbókarsíðu sinni. Ásgeir Snær er hávaxinn örvhentur leikmaður sem er fæddur árið 1999 og getur bæði spilað sem skytta og hornamaður. Hann hefur leikið allan sinn feril með Val.



Ásgeir Snær hefur leikið með yngri landsliðum Íslands og lék meðal annars á lokakeppni heimsmeistaramóts U21 árs liða síðasta sumar með íslenska liðinu.

Ásgeir Snær hefur skorað 19 mörk í 17 leikjum með Val í Olís deild karla í vetur hann er með 39 prósent skotnýting.

Ásgeir Snær Vignisson spilar áfram með Val út þetta tímabil en liðið er á toppi Olís deildar karla og komið í átta liða liða úrslit Áskorendabikarins.

Eyjamenn eru að missa Kristján Örn Kristjánsson út í atvinnumennsku eftir þetta tímabil en Kristján er með 6,5 mörk að meðaltali í leik í Olís deildinni í vetur.

Eyjamenn hafa góða reynslu af því að fá til sín örvhenta Valsmenn en Agnar Smári Jónsson kom til Eyja og hjálpaði liðinu að vinna tvo Íslandsmeistaratitla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×