Körfubolti

Viðar vissi hver staðan var en ætlaði ekki að brjóta af sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar segist hafa gert mistök þegar hann braut á Róberti undir lok leiks Tindastóls og Fjölnis í gær.
Viðar segist hafa gert mistök þegar hann braut á Róberti undir lok leiks Tindastóls og Fjölnis í gær. vísir/bára

Viðar Ágústsson segist hafa vitað hver staðan var þegar hann braut á Róberti Sigurðarsyni undir lok leiks Tindastóls og Fjölnis í Domino's deild karla í gær. Ætlunin hafi þó ekki verið að brjóta á Róberti.

Þegar leiktíminn var að renna út, í stöðunni 80-80, braut Viðar á Róberti og sendi hann á vítalínuna. Róbert hitti úr fyrra vítinu en brenndi viljandi af því seinna. Leiktíminn rann út og Fjölnismenn fögnuðu afar óvæntum sigri, 80-81.





Sérfræðingar Domino's Körfuboltakvölds veltu fyrir sér hvort Viðar hafi hreinlega verið meðvitaður um stöðuna í leiknum þegar hann braut á Róberti. Hann svaraði því játandi í samtali við Vísi í dag.

„Ég vissi hver staðan var en þetta var klaufalegt,“ sagði Viðar.

En vissi hann hversu mikill tími var eftir?

„Svosem ekki, ég ætlaði bara að fara ákveðið í hann en ekki brjóta. En ég fór of langt,“ sagði Viðar. Hann segist strax hafa gert sér grein fyrir mistökum sínum.

Viðar segist ekki hafa fengið skilaboð af bekknum eða úr stúkunni um að brjóta af sér.

„Nei, ég fékk ekkert svoleiðis,“ sagði Viðar.

Tindastóll er í 3. sæti deildarinnar og markmiðið er að halda því.

„Við ætlum að klára þetta vel og tryggja okkur 3. sætið og heimavallarrétt í úrslitakeppninni,“ sagði Viðar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×