Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: Teitur Örlygs hefði haldið Simmons frekar en Geiger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerel Simmons var með 17,3 stig að meðaltali í leik með Tindastól.
Gerel Simmons var með 17,3 stig að meðaltali í leik með Tindastól. Vísir/Bára

Tindastólsmenn töpuðu mikilvægum stigum á heimavelli í gær á móti langneðsta liði deildarinnar og þetta tap gæti mögulega kostað liðið heimavallarrrétt í úrslitakeppninni.

Kjartan Atli Kjartansson og félagar hans í Domino´s Körfuboltakvöldi tóku Stólana fyrir í þætti sínum í gær og fóru meðal annars ofan í þá ákvörðun Tindastóls að reka Gerel Simmons í landsleikjahléinu.

„Það eru margir pirraðir fyrir norðan núna,“ sagði Teitur Örlygsson og að hans mati þá gerðu Stólarnir mistök með því að skipta Gerel Simmons út fyrir Deremy Geiger.

„Ég var búinn að segja það áður að ég hefði haldið Simmons frekar. Mér fannst Simmons vera mikið betri sóknarmaður. Núna þegar mótspyrnan kom frá Fjölni, liði sem er fallið úr deildinni, þá fannst mér Geiger verða bara lítill í fyrri hálfleik,“ sagði Teitur Örlygsson, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

„Hann skaut boltanum mjög illa og var að held 10/1 eða 11/1 áður en hann setti niður þessa tvo þrista í fjórða leikhlutanum,“ sagði Teitur.

Deremy Geiger hefur ekki skorða minna í leik í vetur og þetta var líka langversta skotnýting hans í einum leik í Tindastólsbúningnum. Geiger hitti aðeins úr 3 af 12 skotum sínum í leiknum.

„Hann nánast bjargaði leiknum sínum með því að setja niður þessa tvo þrista í lokin,“ sagði Sævar Sævarsson en Teitur greip frammi í fyrir honum: „Nei, nei hann gerði það ekki,“ sagði Teitur.

„Hefðu þeir getað náð þessu í framlengingu og unnið þá hefði hann getað bjargað andlitinu,“ útskýrði Sævar frekar.

Það má sjá alla umfjöllunina um Tindastól og kanaskiptin hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: Teitur Örlygs hefði haldið Simmons frekar en Geiger



Fleiri fréttir

Sjá meira


×