Umfjöllun: Tindastóll - Fjölnir 80-81 | Fjölnir fagnaði á Króknum eftir dramatík

Jóhann Helgi Sigmarsson skrifar
Stólarnir eru áfram í 3. sæti þrátt fyrir afar óvænt tap.
Stólarnir eru áfram í 3. sæti þrátt fyrir afar óvænt tap. vísir/bára

Leikur Tindastóls og Fjölnis í kvöld fer ekki í sögubækurnar fyrir fegurð og glimrandi sóknarleik. Stólarnir virtust ætla að leggja sem minnst á sig til að landa sigri, en fallnir Fjölnismenn mættu ágætlega stemmdir og voru miklu tilbúnari til að landa tveimur stigum í Síkinu í kvöld. Gestirnir leiddu leikinn mest allan fyrri hálfleik þó aldrei yrði munurinn verulegur. Staðan í hálfleik 36-37. Fjölnir náði svo 15 stiga forskoti í þriðja leikhluta, en þrjár þriggja körfur í röð söxuðu þann mun niður. Stólarnir náðu loks að jafna leikinn í 70 -70 og svo aftur í 80- 80 þegar 10 sekúndur lifðu leiks. Stólarnir brutu síðan klaufalega af sér á síðustu sekúndu leiksins og Róbert Sigurðsson innsiglaði sætan sigur Fjölnis með því að hitta úr öðru vítaskotinu. Loka staðan 80 – 81 og Fjölnir vann þar með annan sigur sinn á tímabilinu.

Það voru Tindastólsmennirnir Jaka Brodnik og Pétur Rúnar sem voru stigahæstir í kvöld, báðir með 24 stig.  Brodnik var að auki með 8 fráköst. Hjá Fjölni voru einnig tveir stigahæstir, báðir með 23 stig, þeir Srdan Stojanovic og Viktor Moses. Moses var svo með 15 fráköst.

Eftir þessa umferð halda Stólarnir ennþá þriðja sætinu í deildinni með 24 stig, eins og KR sem vann Njarðvík í gærkvöldi sem er með 22 stig. Þó þetta hafi verið sætur sigur fyrir Fjölni, þá gerir hann því miður ekkert fyrir þá á stigatöflunni. Þeir tvöfölduðu þó stigin sín og eru núna með 4 stig í tólfta sæti.

Leikurinn í kvöld byrjaði rólega og eftir þrjár og hálfa mínútu var staðan 9 – 9. Þá settu Fjölnismenn þrjár þriggja stigakörfur í röð í andlitið á heimamönnum. Stólarnir náðu að stoppa í götin í vörninni á næstu mínútum og voru búnir að minnka muninn í þrjú stig þegar fyrsta leikhluta lauk.

Fjölnir hélt frumkvæðinu lengstum í öðrum fjórðungi, en um hann miðjan náðu Stólarnir smá spretti, helst fyrir tilstuðlan Péturs Rúnars sem skoraði átta stig á stuttum kafla. Liðin skiptust svo á forystu síðustur mínútur fyrri hálfleiks, en Fjölnir náði að leiða með einu stigi á hálfleik, 36 – 37.

Gestirnir sigu svo hægt og hægt fram úr í þriðja leikhlutanum og voru komnir með 15 stiga forskot í stöðunni 45 – 60. Þá braust þolinmæði Baldurs, sem tók leikhlé og reyndi að trekkja sína menn í gang. Það skilaði sér með þremur þristum í röð og tveimur vítum að auki og munurinn orðinn aðeins 4 stig, staðan 56 – 60.

Fjölnir hélt svo þetta 4 - 7 stiga forskoti fram í miðjan fjórða leikhluta. Þá hrukku Stólarnir aðeins í gang og jöfnuðu leikinn í 70 – 70. Þá tóku við mínútur þar sem Fjölnir náði aftur að læða sér örlítið fram úr, en Stólarnir voru aldrei langt á eftir. Þegar 10 sekúndur voru eftir átti Deremy Geiger ævintýralegt þriggja stiga skot sem fór niður og leikurinn orðinn jafn aftur, 80 – 80. Stólunum urðu síðan á mistök á síðustu sekúndunni þegar brotið var á Róberti Sigurðarsyni, sem skoraði úr öðru vítinu og heimamenn höfðu ekki tíma til að svara því. Þar með hafði Fjölnir unnið sinn annan sigur á tímabilinu 80 – 81.

Falur Harðarson þjálfari Fjölnis var enda brosandi að leik loknum og ánægður með sigurinn. Hann sagðist hafa búist við Stólunum værukærum inn í leikinn eftir fríið og Fjölnir hefði náð að nýta sér það. Sigurinn væri kærkominn og loksins hefðu þeir unnið einn af þessu jöfnu leikjum sem hingað til hefðu tapast í vetur.

Af hverju vann Fjölnir?

Þeir voru örlítið betri á flestum sviðum í kvöld heldur en heimamenn. Síðan höfðu þeir Viktor Moses í teignum sem Stólunum gekk illa að stoppa. 

Hverjir stóðu uppúr?

Hjá gestunum var Viktor Moses bestur með 23 stig, 15 fráköst og 33 framlagspunkta. Srdan Stojanovic var einnig með 23 stig og þá skoraði Jere Vucica 18 stig, þó hvorugur þeirra væri að hitta áberandi vel.  Tindastólsmegin voru Jaka Brodnik og Pétur Rúnar Birgisson lang bestir, báðir með 24 stig. 

Hvað gekk illa?

Það gekk fátt vel hjá Tindastóli í kvöld. Varnarleikurinn slapp til, en hittnin í kvöld var á stórum köflum arfaslök. Bilic og Geiger náðu sér alls ekki á strik og maður spyr sig eftir þennan leik hvort réttur bandarískur leikmaður hafi verið sendur heim á dögunum. 

Hvað gerist næst?

Liðin eiga eftir þrjár leiki núna. Fjölnir á heldur erfiðara prógramm eftir, þeir mæta Keflavík í næsta leik og svo bíða Njarðvík og Stjarnan. Stólarnir halda í heimabæ þjálfarans Þorlákshöfn í næsta leik og eiga síðan ÍR og Grindavík.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira