Handbolti

Bjarki Már: Stefni á að spila í úrslitakeppninni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bjarki Már er hér í baráttunni við Fannar Þór Friðgeirsson í bikarúrslitaleiknum.
Bjarki Már er hér í baráttunni við Fannar Þór Friðgeirsson í bikarúrslitaleiknum. vísir/daníel þór
Varnartröll Stjörnunnar, Bjarki Már Gunnarsson, var frábær í vörn Stjörnunnar í nýliðinni bikarhelgi. Það gladdi marga að sjá hann loksins aftur á vellinum.

„Þetta var frábært og rosalega gaman að geta tekið þátt og ég er þakklátur fyrir það,“ segir Bjarki Már en hann hefur verið að glíma við mjög erfið hnémeiðsli í vetur. „Ég beit bara á jaxlinn um helgina og fékk smá verkjatöflur með.“

Fyrir helgina hafði Bjarki Már aðeins tekið þátt í einum bikarleik í vetur og er því búinn að spila þrjá leiki í heildina. Hann fór í aðgerð síðasta sumar vegna meiðslanna en batinn hefur ekki verið eins góður og vonir stóðu til.

„Hnéð hefur verið að trufla mig síðan 2018 og ég spilaði þjáður í því. Ég fór svo í aðgerðina síðasta sumar og þetta hefur því miður ekki gengið nógu vel,“ segir fyrrum landsliðsmaðurinn.

„Ég þoli bara ákveðið mikið álag en er að vinna í þessu á fullu. Ég ætla ekki að láta þetta skemma allt fyrir mér. Markmiðið er að geta spilað með liðinu í úrslitakeppninni en þangað stefnum við.“

Varnartröllið hefur nánast ekkert getað æft með liðinu í vetur heldur er hann sjálfur í styrktaræfingum ásamt því að hjóla og synda.

„Þetta hefur eðlilega tekið mikið á en ég er að reyna að hugsa ekki of langt fram í tímann. Ég tek bara eina æfingu í einu og vona það besta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×