Handbolti

Fimm ára þjálfaratíð Gunnars í Víkinni endar í vor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Gunnarsson
Gunnar Gunnarsson Vísir/Vilhelm

Gunnar Gunnarsson hættir sem þjálfari karlaliðs Víkinga í handbolta eftir tímabilið.

Víkingsliðið er nú í sjöunda sæti í Grill 66 deild karla með fimm sigra í þrettán leikjum.

Gunnar kom Víkingsliðinu upp í Olís deildina vorið 2017 en þetta er annað ár liðsins í röð í Grill 66 deild karla. Víkingar féllu vorið 2018 en fóru alla leið í hreinan úrslitaleik um sæti í Olísdeildinni síðasta vor þar sem HK hafði betur og fór upp.

„Gunnar hefur þjálfað liðið í fimm ár og hefur á þeim tíma unnið afar fórnfúst og gjöfult starf í þágu Víkings. Hann skilar nú félaginu ungum og mjög efnilegum leikmannahóp sem verður hryggjarstykkið í uppbyggingu karlaliðsins á komandi árum. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð eru leikir í umspili um sæti í efstu deild að ári,“ segir í fréttatilkynningu frá Víkingum.

Þar kemur líka fram að í dag eru einungis fjórir leikmenn eftir af því Víkingsliði sem lék óvænt í Olísdeildinni tímabilið 2017 til 18.

Gunnar þjálfaði Víkingsliðið einnig á árunum 1992 til 1995 en þá sem spilandi þjálfari. Hann hefur því stýrt Víkingsliðinu á átta tímabilum.

Undir stjórn Gunnars hefur Víkingsliðið og æfingahópurinn yngst verulega ár frá ári sem má best sjá í þeirri staðreynd að í dag eru átta uppaldir Víkingar úr 3. flokki í æfingahóp og þar af þrír sem verið hafa í leikmannahóp í vetur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.