Erlent

Segir Thunberg hafa verið „smám saman að hverfa inn í myrkrið“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Greta Thunberg.
Greta Thunberg. Vísir/Getty

Sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg hætti á tímabili að tala og neyta matar þegar hún var ellefu ára, að því er fram kemur í væntanlegri bók móður hennar. Skömmu síðar var Thunberg greind með einhverfu.

Thunberg er nú sautján ára og hefur vakið mikla athygli fyrir baráttu sína í loftslagsmálum en hún hófst með skólaverkfalli hennar í Stokkhólmi síðla sumars árið 2018.

Malena Ernman, móðir Thunberg, lýsir því í nýrri bók sinni að dóttir hennar hafi nær ekkert talað þegar hún var barn. Á um tveggja mánaða tímabili þegar Thunberg var ellefu ára hafi hún jafnframt neitað að borða og lést um hættulega mörg kíló. Ernman lýsir því að dóttir sín hafi smám saman verið að „hverfa inn í einhvers konar myrkur.“

„Hún hætti að spila á píanóið. Hún hætti að hlæja. Hún hætti að tala. Og hún hætti að borða,“ skrifar Ernman.

Þá hafi hún átt erfitt með að skilja af hverju dóttir hennar hegðaði sér á þennan hátt. Foreldrar hennar hafi jafnframt komist að því um svipað leyti að Thunberg væri lögð í einelti í skóla.

Loks var Thunberg greind með einhverfu, sem gerði henni gott, og líf hennar umturnaðist enn frekar þegar skólaverkfallið hóf að vekja athygli. Hægt er að lesa hluta úr bók Ernman sem ber titilinn Our House Is on Fire: Scenes of a Family and a Planet in Crisis á vef Observer. Bókin kemur út 5. mars næstkomandi.

Með aðgerðum sínum vill Thunberg þrýsta á stjórnvöld að grípa til harðari aðgerða þegar kemur að því að draga úr útblæstri koltvísýrings. Þegar leið á baráttu Thunberg bættust ungmenni, alls staðar að úr heiminum, við og hófu svokölluð skólaverkföll. Thunberg var valin manneskja ársins hjá bandaríska blaðinu Time í fyrra.


Tengdar fréttir

Nafnið Greta Thun­berg verður skrá­sett vöru­merki

Greta Thunberg hefur sóst eftir að skrásetja nafnið sitt og fleira sem vörumerki. Segir hún það nauðsynlegt til að "vernda hreyfinguna“ og koma í veg fyrir að hún verði misnotuð í viðskiptalegum tilgangi.

Greta sakaði leiðtoga um aðgerðarleysi

Sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg ávarpaði gesti á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss í morgun og gagnrýndi hún leiðtoga fyrir aðgerðarleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×