Enski boltinn

Segir að það verði erfitt fyrir Liver­pool að halda Van Dijk vilji risarnir á Spáni fá hann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hollendingurinn í leik með Liverpool gegn Atletico Madrid á dögunum.
Hollendingurinn í leik með Liverpool gegn Atletico Madrid á dögunum. vísir/getty

Paul Ince, fyrrum leikmaður Liverpool, segir að félagið muni lenda í vandræðum með að halda varnarmanninum Virgil van Dijk banki Barcelona eða Real Madrid á dyrnar í sumar.

Hinn 52 ára gamli Paul Ince spilaði með félaginu á árunum 1997 til 1999. Hann segir að Hollendingurinn hafi verið lykilmaðurinn í velgengni Liverpool en að spænsku risarnir heilli alltaf.

„Mér finnst að það sem þeir eru að gera er frábært, bæði leikmennirnir og Klopp, en frábær lið vinna titil á hverju einasta ári,“ sagði Ince við Liverpool Echo og hélt áfram:

„Þeir eiga góðan möguleika á því í ár en við þurfum að horfa til baka eftir nokkur ár og sjá hvað þeir hafa gert áður en við förum að segja að þetta Liverpool lið hafi verið frábært.“







„Auðvitað er spurningin núna hversu góðir þeir verða í framtíðinni. Það verður erfitt því þeir eru marga unga og góða leikmenn sem geta bara bætt sig en hlutirnir eru fljótir að breytast. Við sáum það með Coutinho. Skyndilega kom Barcelona til sögunnar og hann var farinn.“

„Aðalmálið fyrir Liverpool er að halda sínum bestu leikmönnum. Mun einhver koma og reyna ná í Van Dijk? Þegar Barcelona og Real Madrid banka á dyrnar er erfitt að segja nei.“

„Þá ertu orðinn fórnarlamb þinnar eigin velgengni. Þegar þú ert að gera svona frábæra hluti eins og Liverpool eru að gera þá vekur það áhuga félaga eins og Barcelona og Real. Það er erfitt að segja nei þegar þau koma til sögunnar.“

Liverpool mætir West Ham í kvöld en með sigri getur liðið aftur náð 22 stiga forskoti á toppi deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×