Skoðun

Þetta bara reddast - Covid19-kórónaveira

Vilhelm Jónsson skrifar

Ábyrgðarleysið og þröngsýni yfirstjórnar heilbrigðiskerfisins með sóttvarnalæknir í fararbroddi verða ef að líkum lætur fljót að sótthreinsa sig af allri ábyrgð ef illa fer.  Máttleysisleg viðbrögð heilbrigðisyfirvalda eru óásættanleg, ekki síst þegar litið er til hvernig aðrar þjóðir bregðast við þessum illvíga sjúkdómi.

Viðbrögð sóttvarnalæknis einkennast af því að skoða, sjá til og gera ekki nokkurn skapaðan hlut annað en að ætla að treysta á að hver og einn sjái um eigið sóttkví og voni það besta. Eina sem sóttvarnalæknir hefur haft fram að færa er að upplýsa þjóðina að haldnir séu reglulega stöðufundir og almenningur eigi að þvo sér vel um hendurnar.

Það verður nógu erfitt fyrir þá sem smitast að takast á við sóttkví þó svo að niðurbrotið og fársjúkt fólk verði ekki smalað eins og dýrum í 40 feta gám áður en tekist er á við einangrun og frekari erfiðleika eða þaðan af verra. Upplýsingaflæðið er mjög takmarkað, óábyrgt og í anda þess hvernig er komið fyrir heilbrigðiskerfinu.

Stjórnsýslan og læknaembættið hafa haft nægan tíma til að finna boðlegt bráðabirgðahúsnæði til að takast á við sóttvarnir og aðstoða fársjúkt fólk. Gámaskrifli hefðu átt að vera neyðarkostur en ekki fyrsti kostur ef allt færi úr böndunum, sem verulega líkur eru á.  Það er ekki eins og það hefði verið sóun á fjármunum að koma upp bráðaspítala ef allt færi á besta veg. Það hefði þá mátt nýta húsakynnin næstu árin meðan beðið væri eftir að skrípaleiknum við Hringbraut lyki, fyrir þá sem trúa að svo verði.

Það virðist loða við yfirstjórn heilbrigðismála að telja að þetta bara reddist í stað að ráðist sé með markvissum hætti í forvarnir og tekið sé með vitrænum hætti á aðstöðuleysi til sóttvarna og lækninga.

Það er eflaust auðvelt að gagnrýna, engu að síður ef illa fer þá bendir flest til að hvert einasta orð eigi rétt á sér.  Það er óforsvaranlegt hvernig haldið hefur verið á málum og er í þeim anda sem loðir við Ísland og heitir ábyrgðarleysi.  Það sem verra er að landsmönnum stendur lítið minni hætta af óábyrgum stjórnvöldum við Austurvöll en af svokallaðri Covid19-kórónaveiru, sem tröllríður heimsbyggðinni.

Þröngsýni sem á sér stað að hefta ekki útbreiðslu Covid19-veiru með markvissari hætti á væntanlega eftir að verða mörgum dýrkeypt og enginn mun axla ábyrgð þó svo að mistök eigi eftir að verða augljós. Á sama tíma og verið er að hefta út um allan heim að fólk komi frá sýktum svæðum, og er umsvifalaust sett í sóttkví, viðhefur sóttvarnalæknir ábyrgðarlaust hjal og enginn segir neitt.

Landlæknisembættið hefur væntanlega skráp og samvisku til að takast á við gerðir sínar og framtaksleysi þegar fólk þarf að mæta afleiðingunum.

Höfundur er fjárfestir.

Tengd skjöl
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.