Viðskipti innlent

At­vinnu­lífið á hand­bremsunni í vaxandi at­vinnu­leysi og verð­bólgu

Heimir Már Pétursson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Vísir/vilhelm

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir ástæðu til að hafa áhyggjur af vaxandi atvinnuleysi og fylgjast vel með þróun verðbólgunnar sem hefur aukist frá síðasta mánuði og mælist nú 2,4 prósent. Þá telji samtökin að Seðlabankinn eigi að lækka vexti enn frekar.

Samkvæmt þessum tölu Hagstofunnar er verðbólga að nálgast verðbólgumarkmið Seðlabankans á ný en þau eru 2,5 prósent. En allt fram í desember í fyrra hafði verðbólga verið yfir markmiðum bankans í níu mánuði. Eftir að hún fór undir markmiðin í desember batt Seðlabankinn vonir við að hún myndi haldast undir markmiðum næstu misseri.

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir allt of snemmt að draga víðtækar ályktanir af þessari hækkun þar sem útsöluáhrif séu minni nú en áður og liðir sem komu til lækkunar áður komi til hækkunar nú.

„Stóra myndin er hins vegar þessi að tólf mánaða verðbólga er ennþá undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Ef við skoðum einfaldlega mánaðamælingarnar í hverjum mánuði unanfarna tólf mánuði erum við ennþá talsvert undir meðaltalsverðbólgu,“ segir Halldór Benjamín.

Þessi þróun gefi engu að síður fullt tilefni til að fylgjast með þróuninni. Því á sama tíma sé atvinnuleysi, sem nú mælist 3,4 prósent, að aukast. En nú séu um tíu þúsund manns skráðir atvinnulausir og atvinnulífið á handbremsunni. Samtök atvinnulífsins telji því að Seðlabankinn eigi að lækka vexti enn frekar.

„Þarna eru tveir þættir. Annars vegar sá að atvinnuleysi hefur verið að aukast mjög mikið og við höfum vissulega áhyggjur af því eins og þorri landsmanna. Á sama tíma höfum við bent á að raunvaxtastig á Íslandi er enn tiltölulega hátt og við höfum bent á að það sé rými til frekari vaxtalækkana.“

Samtök atvinnulífsins telji því einboðið að Seðlabankinn muni halda áfram á braut vaxtalækkana segir Halldór Benjamín Þorbergsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×