Handbolti

Halldór hafnaði tilboði frá Cocks

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Halldór Jóhann á hliðarlínunni með kvennalandsliðinu þar sem hann er aðstoðarþjálfari.
Halldór Jóhann á hliðarlínunni með kvennalandsliðinu þar sem hann er aðstoðarþjálfari. vísir/bára

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Fram, fékk á dögunum tilboð frá finnsku meisturunum í Riihimäen Cocks sem hann hafnaði.

Halldór fór ásamt konu sinni til Finnlands um síðustu helgi að skoða aðstæður.

„Það var margt jákvætt hjá þeim en eftir að hafa skoðað kosti og galla þá ákvað ég að hafna tilboðinu frá þeim,“ segir Halldór Jóhann við Vísi en finnska liðið er í Meistaradeildinni í ár en verður það ekki næsta vetur.

Þjálfarinn tók við liði Fram seint í nóvember en samdi aðeins út þetta tímabil. Hvað tekur við er óvíst.

„Ég er að skoða mín mál þessa dagana. Það eru möguleikar bæði hér heima og erlendis. Ég er að vonast til þess að mín mál skýrist fljótlega,“ segir Halldór en honum stendur meðal annars til boða að halda áfram með Fram-liðið.

Fram á leik gegn HK á laugardaginn og verður án Andra Heimis Friðrikssonar í þeim leik en hann tognaði illa í leiknum gegn ÍR. Halldór vonast til þess að hann verði klár í leikinn gegn KA aðra helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×