Körfubolti

Skoraði sína fyrstu þriggja stiga körfu í NBA með „hand­bolta­skoti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steven Adams í leiknum gegn New Orleans Pelicans í nótt.
Steven Adams í leiknum gegn New Orleans Pelicans í nótt. vísir/getty

Steven Adams skoraði sína fyrstu þriggja stiga körfu á ferlinum í NBA-deildinni þegar Oklahoma City Thunder lagði New Orleans Pelicans að velli, 118-123, í nótt. Og karfan var ótrúleg í meira lagi.

Þegar leiktíminn í fyrri hálfleik var að renna út fékk Adams boltann langt fyrir aftan miðlínuna.

Nýsjálendingurinn beið ekki boðanna og kastaði boltanum í áttina að körfu New Orleans og ofan í fór hann, af rúmlega 17 metra færi. Adams fagnaði tímamótakörfunni með skemmtilegum dansi.

Adams er engin smásmíði, 2,11 metrar á hæð og 120 kíló, og kastaði körfuboltanum með annarri hendi, eins og hann væri handbolti.

Körfuna ótrúlegu má sjá hér fyrir neðan.



Adams er ekki mikil skytta og fyrir leikinn í nótt hafði hann reynt níu þriggja skot síðan hann byrjaði að spila í NBA 2013. Þau geiguðu öll. Hann er núna með 10% nýtingu í þriggja stiga skotum á ferlinum í NBA.

Miðherjinn á alls 17 systkini og hann er ekki sá eini í þeim hópi sem er handsterkur. Eldri systir hans, Valerie Adams, er tvöfaldur Ólympíumeistari og fjórfaldur heimsmeistari í kúluvarpi.

Í leiknum gegn New Orleans skoraði Adams ellefu stig, tók ellefu fráköst og varði þrjú skot. Oklahoma er í 6. sæti Vesturdeildarinnar með 33 sigra og 22 töp.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×